„Skelfileg byrjun á verðbólguári,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, um verðbólgutölurnar sem birtar voru á mánudag. Erna er gestur Ólafs Arnarsonar í nýjasta þætti Markaðarins sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 19.

Hún lýsir áhyggjum sínum af því hve verðbólgan er á breiðum grunni, milli 60 og 70 prósent undirliða vísitölunnar séu að hækka um meira en sex prósent. Þetta sé óþægilegt á að horfa þegar tekið sé tillit til þess að verðbólgumarkmið Seðlabankans sé 2,5 prósent.

„Ég hugsa að ég hafi ekki verið eini greiningaraðilinn sem svelgdist á kaffibollanum á mánudagsmorgun þegar tölurnar komu. Spár greiningaraðila voru á þröngu bili, gert var ráð fyrir að verðbólgan yrði 9,6 prósent en hún varð 10,2 prósent, fór yfir 10 prósenta múrinn sem maður var að vona, þó ekki væri nema bara vegna sálartetursins, að hún færi ekki yfir.“

Erna segir tvo undirliði vísitölunnar hafa komið sérstaklega á óvart. Áhrif útsöluloka hafi verið miklu meiri en búist hafði verið við, segja megi að einhverju leyti að útsölurnar hafi gengið til baka og rúmlega það.

Greiningaraðilum brást bogalistin þegar þeir bjuggust við því að flugfargjöld myndu lækka, eins og oft gerist í febrúar, að sögn Ernu. Flugfargjöld hafi hins vegar hækkað, ekki mikið en nóg til þess áhrifin voru mikil vegna þess að miklu munaði á spám og mældri niðurstöðu.

Hún nefnir miklar hækkanir á matvöru og innflutta verðbólgu. Einnig segir Erna nýgerða kjarasamninga klárlega vera verðbólguhvetjandi samninga, langt yfir því sem hægt sé að segja að samræmist verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Fjármál hins opinbera eru stórt vandamál, segir Erna. Ríki og sveitarfélög séu rekin með miklum halla í blússandi hagvexti og það gangi ekki til lengdar án afleiðinga, sem birtist í verðbólgu og lækkandi gengi krónunnar. Vandi hins opinbera sé ekki tekjuvandi heldur séu það útgjöldin sem valdi vandanum.

Mikilvægt er nú, að mati Ernu, að hið opinbera sýni aðhald í sínum rekstri og gangi á undan með góðu fordæmi. Erna telur að gjaldskrárhækkanir ríkisins um áramótin, þegar verðbólgunni var velt út í gjaldskrár hins opinbera, hafi mögulega sent vafasöm skilaboð til annarra í landinu og fyrirtæki telji sig ekki þurfa að sýna varkárni í verðhækkunum þegar ríkið gerir það ekki sjálft.

„Þegar verðbólgan er orðin þetta mikil eykst hættan á að öllu sé hreinlega velt út í verðlagið,“ segir Erna. „Þá er komin þessi íslenska víxlverkun.

Á síðasta ári var 6,4 prósenta hagvöxtur og ríkið er rekið með meira en 100 milljarða halla. Það gengur einfaldlega ekki í svona árferði,“ segir Erna. „Það þarf að taka til í ríkisrekstrinum.“ Hún segir vandann ekki einskorðast við ríkið og bendir á svonefnt ráðningabann hjá Reykjavíkurborg. Síðan birtast alls konar kostulegar auglýsingar þar sem auglýst er eftir verkefnastjórum og öðru starfsfólki.

Hún segir það jákvætt að ríkisstjórnin boði nú aukið aðhald. Ekki sé hins vegar nóg að tala um það heldur verði að fylgja orðunum eftir.

Erna segir Seðlabankann vera dálítið einan í baráttunni við verðbólguna, ekki komi stuðningur í gegnum ríkisfjármálin og ekki heldur frá vinnumarkaðnum. Hún segir að ef ekki verði snúið við blaðinu stöndum við frammi fyrir gamalkunnum íslenskum veruleika, víxlverkun verðlags, launa og gengislækkunar og það sé staða sem enginn vilji.