FISK-Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, keypti í morgun allan hlut Gildis lífeyrissjóðs í Brim, sem áður hét HB Grandi, fyrir rúmlega fimm milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Fyrir eignarhlutinn í Brim fékk Gildi meðal annars afhent bréf FISK-Seafood í Högum, en sjávarútvegsfyrirtækið átti samanlagt tæplega 4,6 prósenta hlut í smásölurisanum.

Gildi fór með liðlega 8,5 prósenta hlut í Brimi og er sá hlutur kominn í hendur FISK-Seafood sem gerir félagið að einum stærsta hluthafa útgerðarrisans. Markaðsvirði Brims er rúmlega 63 milljarðar króna.

Gildi var stærsti hluthafinn í Högum fyrir viðskiptin með 12,5 prósenta hlut. Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar hvort Gildi hafi í viðskiptunum tekið yfir allan hlut FISK-Seafood í Högum, eða aðeins hluta hans, en sjávarútvegsfyrirtækið seldi í morgun allan eignarhlut sinn í Högum, samkvæmt heimildum Markaðarins, samtals 55,5 milljónir hluta, á genginu 41,5 krónur á hlut, jafnvirði um 2,3 milljarða króna.

Sala Gildis í Brimi kemur í kjölfar hluthafafundar útgerðarfélagsins í síðustu viku þar sem tillaga stjórnar um kaup á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína var samþykkt. Gildi gagnrýndi kaupin og sagði þau eiga sér afar skamman aðdraganda hjá stjórn Brims. Að mati Gildis voru þessar fyrirætlanir ekki trúverðugar og var ekki sýnt fram á að aðrar leiðir að sömu markmiðum, og með minni tilkostnaði, væru ófærar.

„Viðskipti milli tengdra aðila verða að vera hafin yfir vafa og að mati sjóðsins hefur ekki tekist að sýna fram á að þessi viðskipti séu hagfelld og nauðsynleg fyrir HB Granda,“ kom fram í tilkynningu Gildis í aðdraganda hluthafafundarins.

FISK-Seafood, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, gekk á síðasta ári frá kaupum á öllum eignarhlut Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem er stærsti hluthafi Brims, í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum en um var að ræða þriðjungshlut. Kaupverðið nam 9,4 milljörðum króna.