Hagnaður Mylluseturs, útgáfufélags Viðskiptablaðsins og tengdra fjölmiðla, nam 4,7 milljónum króna í fyrra og dróst saman um 7,9 milljónir króna á milli ára, samkvæmt ársreikningi félagsins. Allt frá árinu 2010 hefur útgáfustarfsemi Mylluseturs skilað hagnaði á hverju einasta rekstrarári.

Rekstrartekjur félagsins námu samtals 289 milljónum króna í fyrra og jukust um sjö milljónir króna frá árinu 2016. Launakostnaður var 183 milljónir króna á síðasta ári og jókst um rúmlega tíu prósent frá fyrra ári. Meðalfjöldi starfsmanna var 18 talsins og hélst óbreyttur á milli ára.

Heildareignir Mylluseturs námu tæpum 177 milljónum króna í lok síðasta árs og var bókfært eigið fé um 67 milljónir króna á sama tíma. Eiginfjárhlutfall félagsins er því um 38 prósent.

Eignir Mylluseturs eru að stærstum hluta útistandandi viðskiptakröfur að fjárhæð um 137 milljónir króna. Heildarskuldir félagsins voru 110 milljónir króna í árslok 2017 og jukust um 16 milljónir króna á milli ára. 

Eigendur Mylluseturs eru Pétur Árni Jónsson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Heildar, með 67 prósenta hlut og Sveinn Biering Jónsson fjárfestir með 33 prósenta hlut. 

Útgáfufélagið keypti sem kunnugt er viðskiptatímaritið Frjálsa verslun í fyrra en seljandi var útgáfufélagið Heimir. Frjáls verslun er elsta viðskiptatímarit landsins og hefur komið út frá árinu 1939.