Frjáls fjölmiðlun, útgefandi DV, dv.is og undirmiðla, tapaði 240 milljónum á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef DV.

Rekstrartekjur félagsins námu 380 milljónum króna og var rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagsliði (e. EBITDA) neikvæð um 214 milljónir.

Karl Garðarsson, framkvæmdarstjóri Frjálsar fjölmiðlunar segir að félagið í dag sé allt annað og öflugra en á síðasta ári þrátt fyrir tapið.

„Í lok síðasta árs var ráðist í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir hjá Frjálsri fjölmiðlun sem munu skila sér að fullu þegar afkoma yfirstandandi árs liggur fyrir. Breytingar til batnaðar eru miklar milli ára. Árið 2018 var fyrsta heila rekstrarár félagsins og það það tók tíma að ná tökum á rekstrinum og grípa til nauðsynlegra aðgerða,“ segir Karl.

Karl er augljóslega stoltur af dv.is og bendir á að um 130 þúsund manns heimsæki vefinn á hverjum degi. „Það er lykilatriði að flytja fréttir af fólki fyrir fólk,“ segir hann.

Karl segir að afkomutölur flestra einkarekinna fjölmiðla benda til þess að staðan sé mjög alvarleg og það geti grafið undan því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna í þjóðfélaginu. Það sé því áríðandi að bregðast skjótt við til að styrkja lýðræðislega umræðu í landinu.

DV ehf., sem sá um rekstur samnefnds blaðs og miðils var úrskurðað gjaldþrota 7. mars á síðasta ári. Frjáls fjölmiðlun lauk árinu 2017 með tapi um 43,6 milljónir þrátt fyrir að hafa aðeins verið starfandi frá því í september sama ár.

„Staða DV hefur styrkst verulega. Við höfum aldrei verið með svo mikinn lestur. Reksturinn er að taka stórstígum breytingum til batnaðar. Það er bjart fram undan hjá okkur,“ sagði Karl í samtali við Fréttablaðið síðastliðinn apríl.