Útflutningsverðmæti loðnuafurða á fyrstu fimm mánuðum ársins var um 16,4 milljarðar króna og hefur ekki verið svo hátt frá árinu 2015, að því er kemur fram í samantekt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Útflutningsverðmæti loðnu hefur aðeins tvisvar verið meira á fyrstu fimm mánuðum ársins síðastliðna tvo áratugi, þrátt fyrir að loðnuvertíðin nú hafi verið miklu minni í tonnum talið en oftast nær.

„Ótal þættir hafa áhrif á samsetningu og verð [loðnu]afurðanna. Þó ber hér helst að nefna heildaraflamark á loðnu hér á landi, sem segir ekki einungis til um það magn sem fyrirtækin hafa heimild til að veiða og hvernig aflanum verður þá líklega ráðstafað, heldur hefur það einnig mikil áhrif á heimsmarkaðsverð. Það er nú ekki oft sem litla Ísland er í slíkri áhrifastöðu, en ástæðan er einkum sú að á undanförnum árum hefur stærsti hluti heimsafla loðnu verið veiddur við Íslandsstrendur,“ segir í umfjöllun SFS.

SFS bendir á að íslensku uppsjávarfyrirtækin hafi staðið í miklum fjárfestingum á undanförnum árum, sem hefur skilað sér í betri nýtingu og hærra afurðaverði. Einnig benda samtökin á að þrátt fyrir að töluvert eigi eftir að skila sér inn í útflutningstölur loðnu, eru útflutningsverðmætin fyrir hvert landað kíló af loðnu nú þegar meiri en nokkru sinni fyrr.

„Á fyrstu 5 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuhrogna komið í 9,7 milljarða króna og þarf ekki mikið í viðbót til þess að fyrri met verði slegin í þeim efnum. Jafngilda þau um 60 prósentum af heildarútflutningsverðmætum loðnuafurða á tímabilinu og er ljóst að þetta háa hlutfall hrogna er meðal þeirra þátta sem skýra hátt meðalverð loðnuafurða í ár. Útflutningur á loðnu, heilfrystri á landi, hefur svo skilað um þriðjungi útflutningstekna það sem af er ári, eða um 5,2 milljörðum króna. Útflutningur á mjöli og lýsi er svo margfalt minni en önnur ár, að undanskyldum þeim árum sem loðnubrestur hefur orðið,“ segir í fréttabréfi SFS.

Samhengi aflamarks og aflaverðmætis loðnu er ekki alltaf fyrirsjáanlegt, eins og kemur fram á þessari mynd frá SFS.