Frá því í sumar hefur krónan lækkað um næstum 10 prósent sem gerir Seðlabankanum erfiðara um vik en ella að ná tökum á verðbólgu og skaðar hag innflutningsfyrirtækja og neytenda.

„Jú, það hefur heldur betur verið sveifla á krónunni undanfarna mánuði,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. „Hún er reyndar farin að sækja í sig veðrið aftur undanfarna viku eða svo eftir talsverða veikingu í október og fyrri helming nóvembermánaðar.“

Jón Bjarki hefur bent á þrjá áhrifaþætti sem hann telur að spili allir eitthvert hlutverk í þróuninni í haust.

Methalli í október

„Í fyrsta lagi hefur halli á utanríkisviðskiptum verið meiri síðustu mánuði en við, og líklega margir aðrir, gerðum ráð fyrir. Halli á vöruskiptum var 44 milljarðar króna í september og 53 milljarðar í október. Hallinn í október var sá mesti í krónum talið svo langt aftur sem tölur Hagstofunnar ná. Innflutningur hefur verið í örum vexti, og að því er virðist er bæði magnið að aukast milli ára og verðið einnig að hækka,“ segir Jón Bjarki.

„Önnur birtingarmynd á miklum innflutningi er kortaveltutölur þar sem met var sömuleiðis slegið í október í erlendri kortaveltu heimila á sama tíma og metfjöldi Íslendinga skellti sér út fyrir landsteinana í mánuðinum. Jólaverslunin hefur líka færst framar sem eykur á tímabundin gjaldeyriskaup á haustdögum, bæði hjá innflytjendum og eins almenningi svona óbeint samhliða viðskiptum við erlendar netverslanir.“

Jón Bjarki segir að þótt ferðaþjónustan sé komin á gott skrið og ferðamannahaustið hafi verið myndarlegt hafi vöruútflutningur verið í rýrara lagi síðustu mánuðina, meðal annars vegna minni kvóta á botnfiski á nýhöfnu fiskveiðiári og lækkandi verðs á áli og öðrum málmum.

„Það er enn mikill gangur í hagkerfinu sem kallar á mikinn innflutning og útflutningstekjurnar hafa einfaldlega ekki verið að halda í við innflutningsvöxtinn enn sem komið er í haust.“

Vænt innflæði varð ekki

Í öðru lagi segir Jón Bjarki að nokkurt gjaldeyrisútflæði hafi verið tengt verðbréfaviðskiptum. „Þar eiga lífeyrissjóðirnir auðvitað hlut að máli þótt þeir virðist nú ekki vera að auka gjaldeyriskaup sín stórkostlega ef marka má nýlegar tölur. Þar á ofan rættust ekki væntingar um að umtalsvert gjaldeyrisinnflæði myndi fylgja kaupum erlendra vísitölusjóða á íslenskum hlutabréfum í kjölfarið á innkomu Íslands inn í tilteknar alþjóðlegar hlutabréfavísitölur.“

Í þriðja lagi segir Jón að nokkuð kunni að vera um að verið sé að greiða upp erlendar skuldir og færa fjármögnun yfir í íslenskar krónur. Lítið sé af handföstum gögnum um slíka þróun en það sé vissulega hugsanleg skýring, ekki síst þar sem aðgengi að erlendu fjármagni hafi versnað undanfarna mánuði og vaxtamunur við útlönd minnkað, að minnsta kosti á suma mælikvarða.

„Ég er samt sem áður nokkuð bjartsýnn á að það mesta í þessari veikingarhrinu sé að baki í bili enda virðist ríkja betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði síðustu daga. Þó er alltaf vert að hafa í huga að gjaldmiðlar eru ólíkindatól,“ segir Jón Bragi Bentsson. n