Unnið er að því að leggja skýrslubeiðni fyrir Alþingi sem felur í sér að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á starfsemi Samkeppniseftirlitsins. Þetta herma áreiðanlegar heimildir Markaðarins.

Frumkvæðið áttu Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins og nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, en væntingar standa til þess að þingmenn fleiri flokka komi að skýrslubeiðninni. Níu þingmenn þarf til þess að leggja fram slíka beiðni.

Eftir því sem Markaðurinn kemst næst mun stjórnsýsluúttektin beinast að þeirri starfsemi Samkeppniseftirlitsins sem snýr að samrunum fyrirtækja. Þannig verður lagt mat á eftirlitshlutverk stofnunarinnar, árangur samrunamála og hvernig þeim hefur verið háttað á síðustu árum.

Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu en Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali í mars í Fréttablaðinu að samskipti Festar og Samkeppniseftirlitsins, vektu upp áleitnar spurningar.

Vísaði hann þar til mikils kostnaðar Festar af óháðum kunnáttumanni, sem var skipaður í kjölfar sáttar við Samkeppniseftirlitið, og örðugleika í samskiptum smásölufélagsins og eftirlitsstofnunarinnar.

Þá var í lok mars haft eftir Óla Birni að skynsamlegt væri, jafnt fyrir Samkeppniseftirlitið og atvinnulífið, að óskað yrði eftir því við Ríkisendurskoðun að vinna stjórnsýsluúttekt á stofnuninni.

„Fyrir þingið er mikilvægt að ítarlegar og góðar upplýsingar um starfsemi, frammistöðu stjórnvalda, ekki síst eftirlitsstofnana, liggi fyrir á hverjum tíma. Stjórnsýsluúttekt er eitt mikilvægasta og öflugasta verkfærið sem löggjafinn hefur í eftirliti með framkvæmdarvaldinu,“ sagði Óli Björn.

Hann tók fram að tilefnið einskorðaðist ekki við ágreining Festar og eftirlitsstofnunarinnar. Ræða þyrfti almennt um störf stofnunarinnar, rammann sem hún starfaði eftir og traust í hennar garð.