Hlutafjárútboði nýsköpunarfyrirtækisins Solid Cloud er nú lokið og lauk með fjórum sinnum meiri áhuga en búist var við. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að boðið hafi verið í fyrir 2,8 milljarða íslenskra króna af 2.700 fjárfestum, en það er margfalt það sem hafði verið búist við. Horft hafði verið til þess að afla um 500 milljóna til 725 milljóna króna með útboðinu.
„Þetta er fjórum sinnum meira en við vildum. Það er mjög gott og ég held að þetta séu ákveðin vatnaskil varðandi fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi,“ segir Stefán Þór Gunnarsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, í samtali við Fréttablaðið í kvöld.
Í tilkynningu kemur fram að alls hafi verið í boði 40 milljón hlutir með leyfi til að auka það í 58 milljón hluti. Fast verð fyrir hvern hlut var 12,5 krónur og var útboðinu skipt í tvo hluta, A og B. Fyrir A var boðið í fyrir 1,8 milljarð og fyrir B fyrir 900 milljónir.
Framkvæmdastjóri Solid Clouds, Stefán Gunnarsson, segir í tilkynningunni að þeir séu þakklátir þessum gífurlega áhuga á Solid Clouds hjá fjárfestum.
„Þetta er augnablik sem verður vert að muna eftir og þetta er spennandi þáttur í sögu fyrirtækisins. Fyrirtækið er nú vel statt fyrir næsta skref sitt í vexti og þetta framlag gerir okkur kleift að grípa tækifæri í framtíðinni,“ segir hann og þakkar sérstaklega starfsfólki sínu fyrir vinnu sína undanfarnar vikur.
Tilkynna dreifingu á morgun
Í tilkynningunni segir að stjórn Solid Clouds muni fara yfir skráningu hlutanna og ákveða hvernig þeim verður dreift. Tilkynnt verður um dreifinguna á morgun. Fram kemur í tilkynningunni að fjárfestum verði sent tilkynning og að greiða verði í seinasta lagi 6. Júlí og svo bréfin afhent þann 12. Júlí.
Spurður um áhuga almennings á útboðinu segir Stefán að það hafi verið bæði áhugi meðal almennings og fjárfesta.
„Það hefur lengi vantar fjölbreyttari valkosti til fjárfestinga á Íslandi og þetta er að okkar mati vannýtt leið til fjármögnunar fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Þetta er það sem að við sjáum gerast í Svíþjóð sem er framarlega i nýsköpunarhagkerfinu,“ segir Stefán.
Hann segist eiga von á því að önnur nýsköpunarfyrirtæki nýti sér þessa leið.