Viðskiptaráð hefur útbúið reiknivél til að meta hvort borgi sig frekar að fjárfesta í hjólhýsi eða bóka hótelherbergi.

Sem dæmi er rúmlega 1,5 milljón krónum ódýrara að gista á hóteli en eiga 5 milljón króna hjólhýsi í áratug ef hjólhýsið er notað 10 daga á ári. Það mun hins vegar spara þig nærri 200 þúsund krónur ef gistinæturnar eru 15.

Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir í samtali við Markaðinn að þetta sé aðeins til gamans gert, hugmyndin hafi kviknað út frá umræðum um hvort svakalegur búnaður sem margir fara með í útileigu borgi sig.

„Það er ekkert hægt að finna sem hjálpar manni við að reikna út hvort það borgi sig að eignast hjólhýsi,“ segir Konráð. „Við erum með hugbúnaðinn Grid sem gerir þetta auðvelt, það er hægt að gera Excel-skjal og nota Grid til að leika sér. Þetta er í raun afraksturinn af því.“

Mikil veðurblíða hefur verið í sumar og eru margir á faraldsfæti. Greint hefur verið frá því að það hafi hreinlega verið vöruskortur á þeim svæðum þar sem veðrið er best. Þeir sem hafa farið á tjaldsvæði í sumar hafa orðið varir við mikinn útbúnað sem margir notast við í útileigunni.

Stóru spurningunni sem reiknivélinni er ætlað að svara er hvort sé ódýrara, að gista á hóteli eða í hjólhýsi.

Konráð ítrekar að reiknivélin sé aðeins til gamans gerð. „Þetta er að miklu leyti til gamans gert. Þetta hefur ekkert úrslitavald um hvernig þú ferðast en kostnaður skiptir okkur máli og þetta getur vonandi hjálpað einhverjum.“

Hér má nálgast reiknivélina.