Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um ríflega 0,9 prósent í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði eftir um 0,8 prósenta lækkun í gær. Óverðtryggð ríkisskuldabréf héldu hins vegar áfram að hækka í verði.

Hlutabréfaverð í Heimavöllum lækkaði mest allra skráðra félaga eða um 7,9 prósent í sex milljóna króna viðskiptum en eins og greint var frá síðdegis í gær hafa stærstu hluthafar íbúðaleigufélagsins fellt niður tilboð sitt í allt að 27 prósenta hlut í félaginu.

Þá lækkaði gengi hlutabréfa í Reitum um tæplega 1,7 prósent í 293 milljóna króna veltu og bréf í Marel féllu um 1,4 prósent í verði í 160 milljóna króna viðskiptum.

Hlutabréf í Sýn hækkuðu mest allra skráðra félaga í verði í Kauphöllinni í dag eða um liðlega 2,5 prósent í talsverðri veltu sem var 544 milljónir króna.

Mesta veltan var með hlutabréf í Kviku en þau fóru upp um eitt prósent í verði í alls 638 milljóna króna veltu.

Heildarvelta á hlutabréfamarkaðinum var um 3,6 milljarðar króna í dag og var fjöldi viðskipta 127.