Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um liðlega 4,9 prósent í viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði og fór þannig upp í nærri 1.735 stig. Vísitalan hefur rokið upp um alls 9,6 prósent á þremur dögum.

Sé litið til síðustu fimm vikna - frá því að lækkunarhrinan á markaðinum hófst - nemur lækkun vísitölunnar rúmum tuttugu prósentum.

Gengi hlutabréfa í Marel hækkaði mest allra félaga í viðskiptum dagsins eða um sjö prósent í 525 milljóna króna viðskiptum. Þá hækkuðu bréf í Origo um 6,5 prósent í verði, gengi bréfa í TM fór upp um 6,2 prósent og hlutabréf í Símanum hækkuðu um 5,2 prósent í verði.

Hlutabréf í fjórum Kauphallarfélögum lækkuðu í verði í viðskiptum dagsins. Heimavellir og Iceland Seafood fóru niður um 0,7 prósent, Brim lækkaði um 0,5 prósent og Icelandair Group um 0,3 prósent.

Gengi bréfa í fasteignafélögunum Eik og Regin og flutningarisanum Eimskip stóð í stað.