Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 20,5 prósent á árinu 2020. Heildarvísitala hlutabréfa (OMXIPI) hækkaði um 24,3 prósent.

Fjöldi viðskipta árið 2020 voru 56.337 talsins eða um 226 á dag. Fjöldi viðskipta árið 2019 voru 35.641 eða um 144 á dag og jukust því um 58 prósent á milli ára. Er þetta mesti fjöldi viðskipta á hlutabréfamarkaði í 12 ár.

Flest viðskipti voru með bréf Icelandair Group eða 17.218, Marel 6.070, Arion banka 4.233, VÍS 2.472 og Kviku banka 2.429.

Óhætt er að segja að desember hafi verið sögulegur mánuður á hlutabréfamarkaði en fjöldi viðskipta var sá mesti í einum mánuði, 9.515 viðskipti, í ríflega 12 ár, auk þess sem mánuðurinn var sá næstveltuhæsti yfir sama tímabil. Þá var fjöldi viðskipta með Icelandair Group þau mestu með eitt félag í einum mánuði, 4.974 viðskipti, í sögu íslensks hlutabréfamarkaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er óhætt að segja að árið hefur verið mjög óvenjulegt á markaði en Covid-19 skapaði mikinn óróa hér sem annars staðar,“ segir Finnbogi Rafn Jónsson, forstöðumaður viðskipta og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland, í tilkynningu. „En markaðurinn stóð veðrið af sér. Úrvalsvísitalan hækkaði t.a.m. um 20,5 prósent á árinu og skráð félög öfluðu sér 29 milljarða á markaði í haust auk þess að nýta hlutabréf sín sem gjaldmiðil við yfirtökur. Hæst bar útboð Icelandair Group sem var það þriðja stærsta í sögu markaðarins. Þar lét almenningur til sín taka svo um munaði og tvöföldun varð á fjölda einstaklinga á markaðnum. Í kjölfarið sáum við fjölda viðskipta með hlutabréf aukast svo um munar, sem rekja má að töluverðu leyti til meiri áhuga almennings og sögulega lágra vaxta. Á skuldabréfamarkaði hafa viðskipti ekki verið meiri síðan 2015. Þar stendur einnig upp úr góður gangur í útgáfu sjálfbærra skuldabréfa og að ríkið nýtti sér markaðinn vel til fjármögnunar. Við lítum björtum augum á nýtt ár, en aðstæður eru hagfelldar til fjármögnunar á markaði. Þá mun innkoma okkar í vísitölur MSCI auka veg markaðarins og möguleg skráning Íslandsbanka yrði sannarlega lyftistöng,“ segir hann.

Veltan dróst saman en viðskipti jukust

Heildarviðskipti með hlutabréf á árinu námu 602 milljörðum eða 2.417 milljónum á dag. Til samanburðar var veltan með hlutabréf árið 2019, 612 milljarðar, eða 2.476 milljónir á dag. Veltan dróst því saman um 1,6 prósent á milli ára.

Mest viðskipti á árinu voru með bréf Marels eða 103,2 milljarðar, þá Arion banka 79,4 milljarðar, Festi 43,7 milljarðar, VÍS 41,8 milljarðar og Símans 41 milljarður.

Á Aðalmarkaði hækkaði verð bréfa Kviku banka mest á árinu eða um 63,5 prósent en þar á eftir bréf TM sem hækkuðu um 53,6 prósent og bréf Origo sem hækkuðu um 50,9 prósent. Á Nasdaq First North markaðnum hækkaði verð bréfa Hampiðjunnar mest eða um 75 prósent.

Icelandair Group lækkaði um 78 prósent og Reitir um 2,9 prósent. Á First North markaðnum lækkuðu Klappir Grænar lausnir um 6,5 pro´sent.

Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 1.563 milljarðar samanborið við 1.251 milljarð í lok árs 2019 sem er 24 prósent hækkun milli ára. Í lok árs voru 23 félög skráð, þar af 4 á Nasdaq First North.