Icelandair hefur verið gert að greiða tilteknum viðskiptavinum staðlaðar skaðabætur að fjárhæð 400 evrur vegna breytingar á flugi samkvæmt úrskurði Samgöngustofu.

Til að bregðast við mikilli röskun á flugsamgöngum, sem kórónaveiran og aðgerðir stjórnvalda víða um heima hafa valdið, hefur Icelandair gripið til þess að selja áfram beint flug til áfangastaða en aflýsa því síðan með nokkurra daga fyrirvara, og útvega nýtt flug með millilendingu.

Í tilfellinu sem Samgöngustofa tók fyrir áttu viðskiptavinir bókað flug til Berlínar í byrjun september. Fluginu var aflýst tveimur dögum fyrir áætlaða brottför, þeim var útvegað nýtt flug og komu þeir fimm klukkustundum síðar en upphaflega stóð til á lokaákvörðunarstað með tengiflugi frá London til Berlínar. Viðskiptavinirnir fóru fram á staðlaðar skaðabætur samkvæmt reglugerðum sem byggjast á Evrópulöggjöf.

Afstaða Icelandair var afdráttarlaus að hafna bæri kröfu kvartanda þar sem umrædd niðurfelling væri til komin vegna óviðráðanlegra aðstæðna, þ.e. ferðatakmarkana sem rekja má til útbreiðslu kórónaveiru.

Sé flugi aflýst eiga farþegar rétt á skaðabótum frá flugrekanda í samræmi við hafi ekki verið tilkynnt um aflýsingu á þann hátt sem kveðið er á um, nema flugrekandi geti sýnt fram á að flugi hafi verið aflýst af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.

Með hliðsjón af þröngri lögskýringu Evrópudómstólsins á hugtakinu óviðráðanlegar aðstæður og að kvartendur komu fimm klukkustundum síðar á lokaákvörðunarstað telur Samgöngustofa að Icelandair hafi ekki sýnt fram á að allar nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir þau óþægindi sem kvartendur urðu fyrir vegna aflýsingar flugs.

Samgöngustofa vísar einnig til þess að landamærin hafi ekki verið lokuð og með hliðsjón af venjubundinni túlkun Evrópudómstólsins á hugtakinu óviðráðanlegar aðstæður falli aflýsing flugsins undir bótaskylt atvik. Ákvörðun þessi er kæranleg til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

Samgöngustofa bendir á að rétturinn til skaðabóta falli niður ef:

i) farþegum er tilkynnt um aflýsingu a.m.k. tveimur vikum fyrir áætlaða brottför.

ii) þeim sé tilkynnt tveimur vikum til sjö dögum fyrir áætlaða brottför að fluginu sé aflýst og boðið að breyta flugleið sinni sem gerir þeim kleift að leggja af stað innan tveggja klukkutíma fyrir áætlaðan brottfarartíma og komast á lokaákvörðunarstað innan fjögurra klukkustunda eftir áætlaðan komutíma.

iii) þeim sé tilkynnt a.m.k. sjö dögum fyrir 3  áætlaða brottför að fluginu sé aflýst og boðið að breyta flugleið sinni, sem gerir þeim kleift að leggja af stað innan klukkustundar fyrir áætlaðan brottfarartíma og komast á lokaákvörðunarstað innan tveggja klukkutíma eftir áætlaðan komutíma.