Skuldabréfaeigendur WOW air, sem fjárfestu fyrir samtals 60 milljónir evra, jafnvirði 8,2 milljarða króna, í skuldabréfaútboði flugfélagsins síðasta haust, þurfa að samþykkja 50 prósenta afskrift af höfuðstól skuldabréfanna til þess að kaup Indigo Partners í félaginu nái fram að ganga.

Á móti munu eigendur skuldabréfanna eignast sjö ára forgangsbréf upp á 30 milljónir evra. Bréfin geta þeir fengið greidd til baka ef annað hvort WOW verður skráð á hlutabréfamarkað þar sem virði þess verði meira en 500 milljónir evra eða að bandaríska fjárfestingafélagið selur hlut sinn í flugfélaginu og salan skili félaginu árlegri ávöxtun upp á að minnsta kosti 20 prósent.

Þetta kemur fram í bréfi sem barst skuldabréfaeigendum WOW air í morgun. 

Í bréfinu kemur fram að þrátt fyrir að samningar hafi ekki enn tekist vinni fulltrúar WOW air og Indigo Partners að því að ganga frá viðskiptunum. Er gert ráð fyrir að heildarfjárfesting bandaríska félagsins í WOW air, að öllum skilyrðum uppfylltum, muni nema allt að 90 milljónum dala, jafnvirði 10,9 milljarða króna.

Áður höfðu forsvarsmenn Indigo Partners gefið það út að félagið væri reiðubúið til þess að fjárfesta fyrir allt að 75 milljónir dala, sem jafngildir liðlega 9 milljörðum króna, í WOW air. 

Er tekið fram í bréfinu að það sé skilyrði þess að fjárfesting Indigo Partners nái fram að ganga að skuldabréfaeigendur WOW air fallist á ákveðnar breytingar á skilmálum bréfanna, þar á meðal að höfuðstóll þeirra verði lækkaður úr 60 milljónum evra í 30 milljónir evra. 

Jafnframt er lagt til að lengt verði í bréfunum úr þremur árum í fimm ár, bréfin verði afskráð ur kauphöll og að vextir þeirra verði fastir í sjö prósentum. Samkvæmt upphaflegum skilmálum bréfanna voru vaxtakjörin níu prósent ofan á þriggja mánaða Euribor-vexti.

Því til viðbótar er gert ráð fyrir því, samkvæmt nýju tillögunum, að sex milljóna dala víkjandi lán sem Títan fjárfestingafélag, móðurfélag WOW air, hefur veitt flugfélaginu verði afskrifað.

Mun ráðast af rekstrarbata WOW air

Í bréfinu til skuldabréfaeigenda WOW air kemur enn fremur fram að endanlegur eignarhlutur Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda flugfélagsins, í félaginu muni ráðast af því hvernig rekstrarbati félagsins muni ganga á næstu þremur árum. Í versta falli gæti hlutur Skúla orðið núll prósent.

Indigo Partners hyggst, að lokinni áreiðanleikakönnun, kaupa hlutabréf í WOW air en auk þess verður fjárfesting bandaríska félagsins í formi láns með breyttirétti í hlutafé.

Í bréfinu til eigenda skuldabréfa WOW air er skýrlega tekið fram að ljúka þurfi atkvæðagreiðslunni fyrir 25. mars næstkomandi. Sem kunnugt er runnu fyrri breytingarnar sem skuldabréfaeigendurnir höfðu áður samþykkt á skilmálum bréfanna úr gildi í lok síðasta mánaðar.

Á meðal skuldabréfaeigenda félagsins eru sjóðir í stýringu GAMMA Capital Management, sjóðir bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance og Skúli sjálfur en hann fjárfesti fyrir 5,5 milljónir evra, jafnvirði um 750 milljóna króna, í útboðinu í september í fyrra.

Versnandi fjárhagsstaða

Þá er rakið í bréfinu að lausafjárstaða WOW air hafa versnað umtalsvert síðustu mánuði. Rekstrarumhverfi flugfélaga sé krefjandi enda sé olíuverð hátt, flugfargjöld lág og samkeppni hörð. Ekki hafi gjaldþrot Primera Air síðasta haust bætt úr skák. 

Allir þessir þættir hafi leitt til þess að lausafjárstaða WOW air hafi farið versnandi með þeim afleiðingum að vaxandi íhaldssemi hafi gætt á meðal kröfuhafa flugfélagsins. Það skili sér í verri kjörum fyrir félagið.

Sem dæmi haldi nú færsluhirðir félagsins eftir talsvert stærri hluta en áður af fargjöldum sem farþegar flugfélagsins greiða þangað til flugferð hefur verið farin. 

Er jafnframt bent á að fyrsti fjórðungur hvers árs sé sögulega versti ársfjórðungur í rekstri flugfélaga sem fljúgi yfir Atlansthafið. Þá hafi nýleg umfjöllun um flugfélagið haft frekari neikvæð áhrif á rekstur þess. Lausa- og eiginfjárstaða þess hafi af þeim sökum versnað enn frekar síðustu vikurnar.

WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,1 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Til samanburðar nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði liðlega 1,6 milljarða króna miðað við núverandi gengi, á sama tímabili árið 2017.