Ekki er ofsögum sagt að íslensk fyrirtæki standi frammi fyrir breyttri heimsmynd. Alþjóðavæðing og tækniframfarir hafa þurrkað út landamæri að nánast öllu leyti nema að nafninu til með þeim afleiðingum að heimurinn fer stöðugt minnkandi og samkeppnin ört harðnandi.

Tækifærin sem þessi þróun hefur skapað eru óþrjótandi eins og fyrirtæki á borð við Apple, Amazon og Google hafa sýnt okkur en að sama skapi hefur tæknin ógnað þeim fyrirtækjum sem hafa ekki lagað sig að breyttum veruleika.

Sagan geymir mýmörg dæmi um fyrirtæki sem gnæfðu yfir keppinauta sína allt þar til ný tækni kippti fótunum undan þeim. Nefna mætti Blockbuster, Kodak og Nokia í því sambandi.

Sagan kennir okkur að fyrirtæki þurfa annaðhvort að ná aukinni hagkvæmni til þess að standast sífellt harðskeyttari samkeppni eða verða nýrri tækni að bráð.

Það er hins vegar ekki nóg að fyrirtæki bregðist við breyttum tímum. Sömu kröfu þarf jafnframt að gera til þess lagaramma sem fyrir­tækjunum er settur. Hann má ekki vera svo stífur að þau geti sig hvergi hreyft. Það skýtur til að mynda skökku við að samkeppnisyfirvöld skuli ekki taka mið af tækniþróun og netverslun þegar þau skilgreina markaði í samrunamálum.

Í nýlegu samrunamáli Advania og Wise töldu samkeppnisyfirvöld til dæmis hættu á því að samruni hugbúnaðarfyrirtækjanna myndi leiða til of mikillar samþjöppunar hér á landi, þannig að samkeppni myndi raskast, jafnvel þótt fyrirtækin starfi bæði á alþjóðlegum markaði í samkeppni við nokkur af stærstu fyrirtækjum heims.

Frummat Samkeppniseftirlitsins fól nánar tiltekið í sér að kaupin hefðu gert það að verkum að staða sameinaðs fyrirtækis yrði of sterk á markaði með tiltekna tegund fjárhagskerfa hér á landi og því þyrfti að íhlutast í samrunann.

Eðli máls samkvæmt er markaður fyrir upplýsingatækni alþjóðlegur, enda virðir upplýsingatæknin engin landamæri. Neytendur velja sér þjónustu eftir verði og gæðum en ekki staðsetningu upplýsingatæknifyrirtækja. Önnur niðurstaða lýsir ákveðinni rörsýn á heiminn.

Því miður bendir margt til þess að túlkun stjórnvalda sé í of mörgum tilfellum úrelt og gamaldags í síbreytilegum heimi. Að þröng skilgreining á mörkuðum standi fyrirtækjum fyrir þrifum í viðleitni þeirra til þess að mæta aukinni samkeppni. Nýr raunveruleiki hlýtur að kalla á breytta sýn. Það á jafnt við um fyrirtæki og stjórnvöld.

Pistillinn birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.