Alls flugu 18 þúsund manns með Icelandair í júní og er það tölu­verð aukning far­þega frá því í maí þegar heildar­fjöldi far­þega var ekki nema þrjú þúsund. Kórónu­veiran hefur sett sitt mark á rekstur flug­fé­lagsins og sam­dráttur í júní­mánuði í ár miðað við sama tíma í fyrra er 97 prósent.

Í júní í fyrra flugu þannig sam­tals um 553 þúsund far­þegar með Icelandair. Heildar­fram­boð fé­lagsins hefur minnkað um 96 prósent milli ára.

Icelandair hóf að auka flug­á­ætlun sína aftur þann 15. júní síðast­liðinn þegar af­létting ferða­tak­markana hófst víða í Evrópu. Í til­kynningu frá flug­fé­laginu segir að það hafi lagt á­herslu á að halda uppi lág­marks­flug­sam­göngum til og frá landinu undan­farnar vikur og mánuði og jafn­framt að tryggja frakt­flutninga sem hafa dregist mun minna saman er far­þega­flug á tíma­bilinu.

Tilbúin að bregðast við


„Við hófum á­ætlunar­flug til nokkurra lyki­l­á­fanga­staða okkar á ný 15. júní síðast­liðinn þegar markaðir hófu að opnast fyrir far­þega­flug eftir langt tíma­bil yfir­grips­mikilla ferða­tak­markana. Við förum þó hægt af stað, eins og fram kemur í flutninga­tölum júní­mánaðar, þó fjöldi far­þega hafi aukist nokkuð á milli mánaða. Flutninga­starf­semi okkar gekk vel og flugum við til að mynda tvisvar á dag flesta daga vikunnar til Banda­ríkjanna og Evrópu með ís­lenskar sjávar­af­urðir,“ segir Bogi Nils Boga­son í til­kynningu fé­lagsins.

„Þá héldum við á­fram í sér­verk­efnum í frakt- og leigu­flugi og má þar til dæmis nefna yfir 20 frakt­flug með lækninga- og hjúkrunar­vörur frá Kína til Evrópu og Banda­ríkjanna fyrir aðila í heil­brigðis­þjónustu. Við út­víkkuðum flug­á­ætlun okkar í byrjun júlí og þrátt fyrir tölu­verða ó­vissu erum við til­búin að bregðast hratt við um leið og á­standið batnar og eftir­spurn tekur við sér.“

Fjöldi far­þega hjá Air Iceland Connect var þá um 12 þúsund í júní­mánuði og fækkaði um 52 prósent á milli ára. Fram­boð þar minnkaði um 63 prósent. Seldir blokk­tímar í leigu­flug­starf­semi fé­lagsins drógust þá saman um 66 prósent milli ára í júní­mánuði. Í til­kynningu fé­lagsins segir að flutninga­starf­semi þess hafi gengið vel í mánuðinum og að frakt­flutningar hafi að­eins dregist saman um 9 prósent milli ára. Sam­drættinum í far­þega­flugi hafi verið mætt með auknum ferðum frakt­véla til bæði Banda­ríkjanna og Evrópu.