Útgerðarfélag Reykjavíkur lauk þriðja víxlaútboði sínu á þessu ári í gær. Alls tók félagið tilboðum fyrir þrjá milljarða króna, en alls bárust tilboð fyrir 3,5 milljarða. Meðaltalsvextir í útboðinu voru 3,55 prósent, en álag á millibankavexti lækkaði um 0,15 prósent frá síðasta útboði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Arctica Finance annaðist útboðið sem var lokað. Sama fjármálafyrirtæki annast nú skuldabréfaútgáfu Útgerðarfélagsins Reykjavíkur.

Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi Brims með tæplega 34 prósenta hlut. Félagið gerir einnig út frystitogarann Guðmund í Nesi og fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum í sjávarútvegi í gegnum dótturfélagið UR Innovation.