„Ég hef verið allan minn starfsferil í fjármálageiranum sem er mjög skemmtilegur geiri. Í fyrsta lagi er þetta skalanlegur rekstur sem þýðir að ef þú ert með stórar hugmyndir þá ertu ekki bundinn við fýsískar takmarkanir eins og framleiðslugetu. Og síðan geturðu fengið mikla útrás fyrir sköpunargleðina. Þá á ég ekki við skapandi bókhald heldur að tengja saman fólk, fjármagn og hugmyndir,“ segir Andri Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar hjá Fossum mörkuðum, sem réð sig nýlega til hátæknigróðurhússins Vaxa þar sem hann mun meðal annars sinna viðskiptaþróun.

„Það að sjóða saman og selja fyrstu grænu útgáfuna fyrir Orkuveituna, eða fyrsta græna fasteignaskuldabréfið fyrir Regin … ég fæ sama kikk út úr því og að standa á sviði í Hörpu og spila á hljóðfæri,“ bætir hann við.

Andri, sem verður Fossum mörkuðum áfram innan handar sem ráðgjafi, hefur verið atkvæðamestur á íslenskum fjármálamarkaði þegar kemur að útgáfu grænna og sjálfbærra skuldabréfa.

„Síðan finnst mér gaman að vera kominn með puttana í rekstur. Ég hef það á tilfinningunni að marga í fjármálageiranum dreymi um að djöflast í rekstri, dálítið eins og marga leikara langar að gerast poppstjörnur!“

Vaxa stundar svokallaðan lóðréttan landbúnað þar sem ræktað er í hillum. Þannig er hægt að rækta á mun fleiri fermetrum en gólfflöturinn segir til um.

Stærsti munurinn á lóðréttri og hefðbundinni ræktun, hvort sem um er að ræða gróðurhús eða úti á akri, er að allt sem viðkemur ræktunarferlinu er undir stjórn. Vaxa nýtir til að mynda ekki sólarljós og rýminu er hita- og rakastýrt sem þýðir að framboð og gæði afurða eru fyrirsjáanleg.

„Það liggur beint við að fara úr grænum og sjálfbærum skuldabréfum yfir í rekstur sem snertir á umhverfismálum og fæðuöryggi. Þessi geiri hefur marga snertifleti við sjálfbærnimálin sem ég hef sökkt mér í í tengslum við skuldabréfa­útgáfu undanfarin ár,“ segir Andri.

„Neytendur eru að verða meðvitaðri um bæði hvaðan vörurnar sem þeir kaupa koma og líka hvernig þær eru búnar til. Við bjóðum upp á ferskt hágæða salat sem er ræktað í heimabyggð – án allra eiturefna. Það er eitthvað sem hefur hitt beint í mark og við erum ótrúlega stolt og þakklát fyrir viðtökurnar,“ segir Andri og bætir við að innanhússræktun bjóði upp á minni notkun áburðar, enga notkun skordýraeiturs og minni flutning vörunnar sem bæði getur dregið úr sótspori og aukið gæði og hillulíf.

Fréttablaðið/Anton Brink

Eftir áralanga reynslu af því að hafa umsjón með útgáfu sjálfbærra skuldabréfa er sýn hans á sjálfbærnimál þó jarðbundin.

„Við erum ein og sér ekki að fara að koma í veg fyrir hungursneyð í heiminum en við getum lagt okkar af mörkum til aukins fæðuöryggis og sjálfbærrar matvælaframleiðslu til framtíðar. Við þurfum að framleiða miklu meiri mat og með allt öðrum sjálfbærari hætti en hingað til.“

Andri á 15 prósenta hlut í Vaxa en stærsti hluthafinn er félag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar, Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, (oft kenndir við Novator) sem fer með 40 prósenta hlut. Eignarhaldið ber með sér að metnaður Vaxa sé ekki bundinn við Ísland.

„Innanhússræktunin sem við stundum er tiltölulega stutt á veg komin og mun þróast ótrúlega mikið á komandi árum og áratugum – bæði ræktunaraðferðir og tækjabúnaður – en á sama tíma eru neysluvenjur að taka stórstígum breytingum. Vaxa er nú þegar í fremstu röð í heiminum og viðskiptaþróun okkar snýst um að nýta tækifæri á þessum markaði, bæði hér heima og í útlöndum.“

Lóðréttur landbúnaður sleit barns­skónum í Asíu fyrir 30 árum en þróunin fór ekki á flug fyrr en fyrir tíu árum þegar Bandaríkjamenn urðu áhugasamir og vísisjóðir lögðu verulegt fjármagn í þróunina. Vaxa byrjaði að rækta í lok árs 2018 og fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019.