„Innviðir eru eftirsóttir af fjárfestum úti um allan heim og þá gefast tækifæri til þess að selja eða endurfjármagna innviði á allt öðrum kjörum en hafa hingað til verið í boði, segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, í samtali við Markaðinn.

Fram kom í árshlutauppgjöri Sýnar, sem birt var í síðustu viku, að til athugunar væri að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu sem myndi skila umtalsverðu fjármagni til hluthafa.

Stór hluti af fjarskiptakerfinu eru óvirkir eða „dauðir“ innviðir, eins og Heiðar lýsir þeim, og á hann þá við rafkerfi og sendaturna. Samkeppni fjarskiptafyrirtækja felst í virka búnaðinum, það er hvernig sendarnir sem eru á stálturnunum virka.

Heiðar segir að á alþjóðlega fjarskiptamarkaðinum sé leitni í áttina að því að skipta fyrirtækjum upp í innviðafyrirtæki annars vegar og sölu- og þjónustufyrirtæki hins vegar. Fyrirtækin halda virka búnaðinum en setja óvirku innviðina í sérfélag sem síðan er selt.

Hann nefnir að TDC, gamla ríkissíma Danmerkur, hafi verið skipt upp með þessum hætti og 3 Denmark, eitt stærsta farsímafyrirtækið þar í landi, hafi tilkynnt í ágúst um uppskiptingu og áform um sölu á innviðahlutanum.

„Vodafone Global setti alla senda­turnana sína í Evrópu í dótturfélagið Vantage Towers fyrr á þessu ári og áformar að skrá félagið á hlutabréfamarkað á fyrsta fjórðungi næsta árs,“ bætir hann við. „Þarna er lagt upp með að ná 27 sinnum EBITDA [rekstrarhagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir] með sölunni.“

„Það eru erlendir fjárfestar sem hafa verið eins og gráir kettir í kringum fjarskiptainnviðina í tvö ár.“

Risavaxið innviðakerfi Vantage Towers, sem rekur 68 þúsund turna í Evrópu, felur þó í sér mikla vaxtarmöguleika, og mikil tækifæri til þess að bæta nýtingu turnanna með því að leigja út aðgang til fjölda evrópskra fjarskiptafyrirtækja. Heiðar bendir á að í nágrannaríkjum, sem svipar meira til íslenska markaðarins, séu EBITDA-margfaldarar við sölu á slíkum innviðafyrirtækjum á bilinu 17 til 25.

„Ef þetta er staðan á alþjóðavísu þá eru væntanlega einhver verðmæti á Íslandi sem hægt væri að koma í verð,“ segir Heiðar. Spurður hvort hann búist við því að kaupendur á innviðunum verði erlendir framtakssjóðir frekar en íslenskir lífeyrissjóðir svarar hann játandi. „Það eru erlendir fjárfestar sem hafa verið eins og gráir kettir í kringum fjarskiptainnviðina í tvö ár.“

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Aðspurður segir Heiðar að ekki sé hægt að skjóta á söluverðið enda velti það meðal annars á því hversu mikið verður selt og einnig hvernig leigusamningar verða gerðir við kaupandann.

Eftir því sem Markaðurinn kemst næst er samsetning fjarskiptakerfisins og núgildandi samkomulag á milli fyrirtækja með þeim hætti að NOVA, sem er að mestu leyti í eigu bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Pt Capital og Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, þyrfti að vera með í ráðum ef Sýn lætur verða af söluferli á óvirkum innviðum.

Hefja næsta fasa

Þá kom einnig fram í uppgjöri Sýnar að félagið sæi frekari tækifæri í samnýtingu fjárfestinga. Sýn og Nova hafa frá árinu 2015 rekið Sendafélagið sem heldur utan um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu eftir að hafa fengið undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu.

„Samkeppniseftirlitið gaf leyfi fyrir samstarfi í tveimur fösum. Fyrsti fasinn snerist um sameiginlegan rekstur á dreifikerfinu og nú erum við að fara í næsta fasa sem snýst um sameign á virkum sendabúnaði,“ segir Heiðar. Sýn mun því færa meiri rekstur og fjárfestingar inn í Sendafélagið og mögulegt söluferli á óvirkum innviðum yrði algjörlega óháð þessu félagi.

Vodafone á Íslandi, sem er rekið af Sýn, hóf í gær uppbyggingu á 5G-kerfi á Íslandi og kom fyrsta sendi fyrirtækisins fyrir við höfuðstöðvar þess á Suðurlandsbraut. Nova hafði tekið þetta skref í maí þegar félagið varð fyrst til að setja upp slíkan sendi. Samkvæmt tilkynningu Vodafone fer öflug uppbygging 5G næstu árin meðal annars fram í gegnum Sendafélagið.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Nova skoðar uppskiptingu

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir í samtali við Markaðinn að félagi leiti sífellt leiða til þess að auka hagkvæmni í rekstri.

„Þegar við stofnun Sendafélagsins var áformað að á einhverjum tímapunkti myndu eignir færast til félagsins en slík yfirfærsla hefur ekki farið fram,“ segir Margrét. Ekki sé tímabært fyrir Nova að gefa út yfirlýsingar um breytingar á samrekstrinum sem fer fram í Sendafélaginu en „tilfærsla eignar er til skoðunar, sem og möguleg uppskipting á virkum og óvirkum innviðum“.

„Bætt nýting innviða er hagsmunamál, sem og að tryggja næga fjárfestingu í innviðum til að notendur farneta geti áfram notið bestu þjónustugæða,“ bætir Margrét við.

Síminn skoðar fjármögnun á grunni Mílu

Eins og Markaðurinn hefur greint frá hafa erlendir framtakssjóðir, sem sérhæfa sig í fjárfestingum í fjarskiptainnviðum, þar á meðal ástralski sjóðurinn Macquarie Infrastructure Corporation, sýnt Mílu, dótturfélagi Símans, áhuga. Í árshlutauppgjöri Símans kom fram að verið væri að skoða að fjármagna Mílu sérstaklega í stað þess að fjármagna samstæðuna sem eina einingu. Míla mun taka við fleiri verkefnum frá Símanum á næstu mánuðum, svo sem rekstri farsímadreifikerfis og IP-nets, og þannig verða stærra hlutfall samstæðunnar. Hagkvæmari fjármagnsskipan er á meðal þess sem fjárfestingarfélagið Stoðir, stærsti hluthafi Símans, hefur lagt áherslu á frá því að félagið byrjaði að fjárfesta í Símanum vorið 2019.