Uppselt er á Októberfest SHÍ sem hefst í kvöld segir Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir, samskiptafulltrúi SHÍ, í samtali við Fréttablaðið. Þetta er í fyrsta skipti sem selst hefur upp frá því að hátíðin hefur verið haldin af þessari stærðargráðu en ákveðið var fyrir í kringum fimm árum að hátíðin myndi snúast meira um tónlist.
Búist við í kringum 3.500 manns
Ekki liggur fyrir hversu margir miðar hafa selst en Guðný áætlar að í kringum 3.500 manns muni mæta á hátíðina um helgina.
Undirbúningur hefur gengið mjög vel og mikil spenna er meðal háskólanema. „Þetta verður stærsta og flottasta hátíðin á þessum sautján árum sem hátíðin hefur verið haldin og það vill klárlega enginn missa af þessu,“ segir Guðný.

Bubbi, Friðrik Dór og Skítamórall meðal atriða í kvöld
Svæðið opnar klukkan 19:00 og fyrsta tónlistaratriðið stígur á stokk klukkan 19:30. Stærsta atriðið, að sögn Guðnýjar, mætir síðan klukkan 20:30 þar sem Bubbi Morthens skemmtir tónleikagestum. Friðrik Dór, Sprite Zero Klan og Skítamórall spila einnig í kvöld og er því öruggt að mikið stuð verði á svæðinu.
Hátíðin kynnir einnig til leiks mathöll og svokallaðan edrúbar, þar sem fólk getur fengið sér óáfenga drykki, en þetta eru nýjungar í ár.
Rigning er í kortunum fyrir helgina og hvetur Guðný tónleikagesti til þess að klæða sig samkvæmt veðri. „Það er náttúrulega ekki til neitt vont veður, heldur er bara til vondur klæðnaður,“ segir Guðný en tekur það á sama tíma fram að meirihluti hátíðarinnar fari fram í tjöldum og því geti fólk alltaf leitað skjóls þar.