Fimmtán manns var í dag sagt upp hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins dreifðust uppsagnir á allar miðla útgáfunnar, það er vef og prent. Starfsmönnum var tilkynnt um uppsagnir í dag á fundi.

Guðmundur Sv Hermannsson, fréttastjóri hjá Morgunblaðinu, staðfestir að uppsagnir hafi verið hjá fyrirtækinu í dag í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að uppsagnir hafi dreifst á margar deildir fyritækisins og fleiri en blaðamönnum hafi verið sagt upp.

Alls starfa samkvæmt heimasíðu Árvakurs um 300 manns hjá fyrirtækinu.

Meðal þeirra sem sagt var upp var blaðamaðurinn Anna Lilja Þórisdóttir en hún birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún greindi frá því. Anna Lilja hefur starfað hjá Morgunblaðinu í nærri áratug.

„Í morgun var mér sagt upp starfi sem blaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu eftir 9 ára sérstaklega farsælan og fjölbreyttan feril. Þetta hefur verið frábær tími á góðum vinnustað með góðu fólki - ég hef fengist við allt á milli himins og jarðar; skrifað innlendar og erlendar fréttir um allt mögulegt, tekið viðtöl, skrifað pistla, gert myndskeið, verið fréttastjóri og vaktstjóri, skrifað fréttaskýringar og ég veit ekki hvað og hvað. Þó að Moggatíma mínum sé nú lokið, a.m.k. í bili, vona ég svo sannarlega að fjölmiðlaferlinum sé ekki lokið,“ segir Anna Lilja.

Þá herma heimildir blaðsins að Önnu Sigríði Einarsdóttur, blaðamanni, hafi einnig verið sagt upp.

Samkvæmt upplýsingum skiptiborði Morgunblaðsins er ritstjóri blaðsins, Haraldur Johannesson, á fundi.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 12:00.