Stjórn Sýnar hf. hefur samþykkt nýtt skipulag félagsins sem miðar að meðal annars því að bæta arðsemi félagsins og einfalda starfsemina. Á sama tíma fækkar stöðugildum og er kostnaður vegna starfsloka um 150 milljónir króna.

Þetta er meðal þess sem kemur í tilkynningu Sýnar til Kauphallar Íslands.

Starfsemi móðurfélagsins verður skipt í tvær kjarnaeiningar, Vodafone og Fjarskipti og fjölmiðlar. Tveir nýir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir inn til félagsins; Hulda Hallgrímsdóttir verður framkvæmdastjóri nýsköpunar og rekstrar, með áherslu á vöruþróun, rekstur og stafrænar umbreytingar og Alda Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs, með sérstaka áherslu á fyrirtækjamenningu til vaxtar. Hún hefur gegnt stöðu mannauðsstjóra Sýnar.

„Það fylgja blendnar tilfinningar deginum í dag. Á sama tíma og við fögnum því sérstaklega að fá tvær öflugar konur í framkvæmdastjórn félagsins, þá verður þetta erfiður dagur þar sem við kveðjum kært samstarfsfólk,“ er haft eftir Yngva Halldórssyni forstjóra Sýnar.

Samkvæmt tilkynningu félagsins er áætlað að breytingarnar, ásamt öðrum rekstraraðgerðum muni skila bættri afkomu Sýnar sem nemi um 650 milljónum króna á ársgrundvelli. Jákvæðra áhrifa muni fyrst gæta í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023.

„Við höfum náð góðum tökum á rekstrinum undanfarin misseri og höfum einblínt á að einfalda ferla, kerfi og skipulag með það að markmiði að bæta þjónustu við viðskiptavini.

Við viljum lækka rekstrarkostnað og þessar aðgerðir eru til þess fallnar að bæta arðsemi félagsins. Við erum nú vel undir það búin að sækja til vaxtar,“ er jafnframt haft eftir Yngva en hann segir að með breytingunum verði félagið í enn sterkari stöðu til að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu, styðja starfsfólkið áfram í að ná árangri og skila hluthöfum ávinningi.