Alls var tíu manns sagt upp hjá Hafrannsóknarstofnun, auk þess sem fjórir sögðu starfi sínu lausu. Að sögn Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, voru sumir af þeim sem sagt var upp í hlutastarfi.

Hann segir að fólki í yfirstjórn hafi verið boðið að halda áfram sem sérfræðingar en að þau hafi ákveðið að hætta. Alls voru það fjórir einstaklingar.

Hann segir að allir sem misstu vinnuna í dag hætti samstundis, það þurfi ekki að vinna uppsagnarfrest. Flestar uppsagnir voru meðal yfirstjórnenda en svo var um að ræða fólk á stoðsviðum, svo sem í fjármálum, bókhaldi, skjalavörslu og móttöku.

Sigurður segir að samhliða flutningunum í Hafnarfjörð verði sett upp nýtt móttökukerfi og þá þurfi færri hendur.

Áttu von á því að þú þurfir að segja fleirum upp?

„Nei, þetta er búið, sem betur fer,“ segir Sigurður að lokum.

Skipulagsbreytingar samhliða flutningum

Frá því er greint á heimasíðu stofnunarinnar að skipulagi stofnunarinnar hafi verið breytt. Það sé gert til að gera reksturinn skilvirkari og hagkvæmari. Fagsviðum var þannig fækkað úr fimm í fjögur og stoðsviðum úr fjórum í tvö.

Einnig er greint frá því að í tengslum við flutning á starfsemi stofnunarinnar úr Reykjavík og til Hafnarfjarðar verði breytingar á rekstri í stoðþjónustu, störfum fækkað og að ekki verði endurráðið í stöður sem losni á næstu mánuðum.

Segir í tilkynningu að kjarnastarfsemi Hafrannsóknastofnunar verður óbreytt og verður öllum helstu rannsóknarverkefnum áfram sinnt.

Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 15:15 eftir að náðist í forstjóra Hafrannsóknarstofnunar.