Upphaf fasteignafélag, sem er í eigu fasteignasjóðsins GAMMA: Novus, tapaði 1,3 milljörðum króna árið 2018 fyrir skatta. Árið áður nam hagnaðurinn 404 milljónum króna.

Fram hefur komið í fréttum á mánudag að eigið fé sjóðsins GAMMA: Novus hafi lækkað í 42 milljónir króna úr 4,4 milljörðum króna eftir endurmat á eignum.

Eigið fé Upphafs var 80 milljónir króna við lok árs í fyrra en var 1,2 milljarðar króna árið áður. Eiginfjárhlutfallið var eitt prósent við árslok en var ellefu prósent árið áður.

Skuldir við lánastofnanir jukust í 4,9 milljarða króna árið 2018 en voru 1,6 milljarðar árið 2017.

Víkjandi lán við hluthafa, sem er Novus, jókst í tvo milljarða úr 1,9 milljörðum króna.

Á árinu 2018 var matsbreyting fjárfestingareigna neikvæð um 220 milljónir króna en árið áður var hún jákvæð um 899 milljónir króna.

Rekstrartap Upphafs nam 326 milljónum króna í fyrra en var 57 milljónir króna árið áður.