Hagnaður Skeljungs fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi var ellefu prósent yfir væntingum Hagfræðideildar Landsbankans. Sá hagnaður nam 1.237 á ársfjórðungnum.

Selt magn af eldsneyti á þriðja ársfjórðungi var í takt við væntingar Landsbankans. Á Íslandi var fimm prósent samdráttur í sölu sem rekja má til þróunar efnahagsmála en í Færeyjum er staða hagkerfisins önnur og jókst sala bifreiðaeldsneytis þar um fimm prósent milli ára.

Alþjóðleg sala á skipaeldsneyti hefur farið vaxandi undanfarna ársfjórðunga. Aukningin var 20 prósent í Færeyjum en eitt prósent á Íslandi. 18 prósent aukning á seldu magni til húshitunar í Færeyjum kom Hagfræðideildinni á óvart.

Framlegðin lækkaði um eitt prósent á milli ára á Íslandi samanborið við 10 prósenta lækkun á öðrum ársfjórðungi. Hagnaður af starfseminni á Íslandi fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta var 906 milljónir króna jókst um tvö prósent á milli ára.

„Miklar lækkanir framlegðar og EBITDA milli ára á Íslandi á öðrum ársfjórðungi héldu því ekki áfram á þriðja fjórðungi,“ segir í viðbrögðum Landsbankans við uppgjöri Skeljungs.

Skeljungur hefur hækkað um tvö prósent í Kauphöllinni í dag.