Unnsteinn Manuel Stefánsson hefur verið áberandi í íslensku menningarlífi síðasta áratuginn. Hann kom fram á sjónarsviðið árið 2006 þegar hljómsveitin Retro Stefson fór að gefa út tónlist. Síðan þá hefur hann fengist við ýmislegt; gefið út lög, séð um sjónvarpsþættina Hæpið, en hann hlaut Edduverðlaun sem sjónvarpsmaður ársins fyrir þá, stofnað útgáfufyrirtæki, útvarpsstöð og nú, síðast í dag, nýtt símafyrirtæki: Sambandið.

Skilin óskýr milli fjölmiðlunar og fjarskipta

Fyrirtækið 101 Productions var stofnað í fyrra af Unnsteini og hinum ýmsu listamönnum í samstarfi við Sýn hf., sem er eigandi Vodafone. Ásamt Unnsteini eiga í því listamennirnir Sigurbjartur Sturla Atlason, Aron Már Ólafsson, Jóhann Kristófer og fyrrum meðlimirnir í Retro Stefson þeir Haraldur Ari Stefánsson og Logi Pedro, bróðir Unnsteins. Fyrirtækið var stofnað í kringum útvarpsstöðina og fjölmiðilinn Útvarp 101.

Þeir vinirnir hafa gengið í gegnum súrt og sætt saman og takast nú á við enn eina áskorunina: að reka símafyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði. Þjónusta Sambandsins verður rekin á kerfum Vodafone. „Þróunin hefur verið verið dáldið þannig að skilin eru að verða óskýr á milli fjölmiðla- og fjarskiptamarkaðarins í heiminum,“ segir Unnsteinn í samtali við Fréttablaðið. „Þá er skemmtilegra að vera fjölmiðill sem getur tekið þátt í honum aktíft og fengið eitthvað út úr því líka. Það er heimspekin á bak við þetta.“

Fyrirtækið kynnti Sambandið á opnum fundi í Hörpunni í morgun. Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps 101, fer yfir starfsemi útvarpsins. Sigurbjartur Sturla Atlason og Logi Pedro stjórna glærunum.

Fyrir um tveimur árum fór Unnsteinn á fund Stefáns Sigurðarsonar, forstjóra Vodafone. „Þar sagði ég honum hvað ég væri búinn að vera að pæla; það vantaði útvarpsstöð með þessu sniði og þennan markhóp. Það var bara ekki til á Íslandi og þar var gat á markaðinum,“ segir Unnsteinn. Stefán tók vel í þetta og hófst vinnan þegar í stað.

Á þessum tíma var Sýn að festa kaup á 365 miðlum. Unnsteinn segir að þá hafi menn séð að við rekstur á útvarpsstöð sem er ekki ríkisrekin er varla hægt að vera með fleiri en tvo til fimm starfsmenn í kringum hana. „Þá kom upp þessi pæling um að við gætum gert farsímavöru sem myndi dálítið borga undir þetta.“

Hann segir þó að útvarpsstöðin hafi hingað til staðið undir sér en með tekjum frá Sambandinu er vonast til að fjölmiðillinn geti stækkað við sig og farið út í stærri verkefni. „Þá þurfum við líka ekki að stóla jafnmikið á auglýsingamarkaðinn sem er búinn að vera mjög flöktandi á Íslandi,“ útskýrir Unnsteinn.

Nýjar áskoranir

Í Sambandinu verður þá í boði stór nýjung á fjarskiptamarkaðinum. Hægt verður að millifæra gagnamagn á milli númera og jafnframt er þar boðið upp á ódýrustu gagnamagnspakka sem völ er á á Íslandi í dag. Einnig verður hægt að bjóða vini að gerast meðlimur í Sambandinu og þyggi hann boðið hljóta báðir aðilar gjöf í formi gagnamagns frá Sambandinu. Unnsteinn segir gagnamagnið þarna vera orðið eins konar gjaldmiðil í fyrsta skipti.

Unnsteinn kynnti nýjungarnar á fundinum í dag. Gagnamagn er nú orðið eins konar gjaldmiðill.

En rekstur á fjarskiptafyrirtæki er talsvert frábrugðinn þeim á útvarpsþjónustu, eða hvað? „Helsti munurinn fyrir okkur er kannski sá að við vorum með frá byrjun í að þróa alla vöruna. Í útvarpinu sjáum við bara um framhliðina; dagskrána, útlitið og allt það, á meðan Sýn var á bak við tjöldin með tæknihliðina og að koma þessu í útsendingu,“ heldur hann áfram.

„Við erum til dæmis ekki undir útvarpssviði Sýnar heldur nýsköpunarsviðinu og erum í raun „startup“ fyrirtæki.“ En planið er að tvinna þennan rekstur saman og skapa nýtt fjarskiptafyrirtæki sem er í beinna sambandi við viðskiptavini sína. „Flestum er sama í hvaða fjarskiptafyrirtæki þau eru þangað til þau fá reikninginn. En við erum dáldið að reyna að breyta því og bjóða upp á alls kyns efni með farsímaþjónustunni til að standa nær viðskiptavinum okkar,“ segir Unnsteinn.

Kapítalismi í sauðargæru

Hann segist þá ekki hafa sagt skilið við listagyðjuna. Unnsteinn er nýbyrjaður á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands og kveðst spenntur fyrir náminu. En er hann ekkert hræddur um að kapítalískur rekstur á fjarskiptaþjónustufyrirtæki hafi áhrif á listsköpunina? „Í raun og veru ekki nei. Mér finnst þetta nefnilega vera svo mikill kapítalismi í sauðargæru,“ segir hann brosandi.

„Af því að þarna eru listamennirnir búnir að taka yfir,“ heldur hann áfram. „Og mig langaði ekki að tengja þetta við þessa áhrifavaldamarkaðssetningu, kannski bara út af orðinu sem slíku, vegna þess að við erum listamenn fyrst og fremst þótt við séum líka áhrifavaldar á einhvern hátt.“ Þannig segir hann að rekstur Sambandsins sé heiðarlegur. Þau standi öll með vörunni sem þau selja, ólíkt ýmsum áhrifavöldum í dag. „En fólkið fær líka fullt í staðinn,“ segir hann.