Banda­ríska flug­fé­lagið United Air­lines hefur til­kynnt að þau muni hefja flug til Ís­lands að nýju í sumar en á­ætlað er að flogið verði dag­lega milli New York, eða Newark, og Kefla­víkur­flug­vallar líkt og áður var gert. Þá verður einnig boðið upp á flug milli Chi­cago og Ís­lands, sem fé­lagið hefur ekki gert áður.

Að því er kemur fram í til­kynningu um málið mun flug til Chi­cago hefjast þann 1. júlí næst­komandi og standa til 4. októ­ber en flug til New York hefst 3. júní og stendur til 30. októ­ber. Fé­lagið segir flug til Ís­lands og annarra á­fanga­staða endur­spegli á­huga far­þega.

„Ferða­langar eru á­fjáðir í að komast í lang­þráða ferð til nýrra á­fanga­staða,“ segir Pat­rick Qu­ay­le, að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri al­þjóða­sviðs United Air­lines, en hann segir Ís­land vera meðal þeirra á­fanga­staða sem bjóði upp á náttúru­fegurð og víð­áttu.

Guð­mundur Daði Rúnars­son, fram­kvæmda­stjóri við­skipta og þróunar hjá Isavia, segir Kefla­víkur­flug­völl bjóða United Air­lines vel­komið aftur til Ís­lands. „Við höfum átt í afar góðu sam­starfi við United á síðustu árum og við hlökkum til að halda því á­fram,“ segir Guð­mundur.

„Sú á­kvörðun fé­lagsins að fjölga á­fanga­stöðum er sterk vís­bending um það að Ís­land verði vin­sæll á­fanga­staður eftir heims­far­aldurinn. Þá er ljóst að eftir­spurn eftir ferðum frá Banda­ríkjunum til Ís­lands er um­tals­verð, en Banda­ríkja­markaður var mikil­vægur fyrir far­aldurinn og verður það á­fram að honum loknum.“