Hver fast­eigna­aug­lýsing fær að jafnaði um­tals­vert færri smelli nú en áður sem gefur til kynna að færri séu að leita sér að íbúð.

Þetta kemur fram í mánaðar­skýrslu hag­deildar Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunar fyrir nóvember­mánuð. Í skýrslunni kemur fram að í byrjun febrúar, þegar fram­boð í­búða var í lág­marki, hafi hver aug­lýsing á höfuð­borgar­svæðinu fengið að meðal­tali 149 smelli á dag. Í fyrri hluta nóvember var sú tala komin niður í 42.

Framboð eykst hratt

Í skýrslunni kemur einnig fram að fjöldi í­búða til sölu hafi aukist hratt á höfuð­borgar­svæðinu í fyrri hluta nóvember eftir að hafa verið frekar stöðugur í októ­ber. Nánar til­tekið var fjöldinn 1.317 í upp­hafi nóvember en þann 14. nóvember voru þær komnar í 1.470. Í­búðum til sölu hefur því fjölgað um 12% á að­eins 14 dögum.

Mynd/HMS

Út­gefnir kaup­samningar í septem­ber voru 419 talsins á höfuð­borgar­svæðinu en til saman­burðar voru þeir 470 í ágúst. Þá er bent á það í skýrslunni að í­búða­verð sem hlut­fall af launum sé nú orðið hærra en þegar það var hæst um haustið 2007. Á þetta við á höfuð­borgar­svæðinu, ná­granna­sveitar­fé­lögum þess og annars staðar á lands­byggðinni.

Markaðurinn ekki frosinn

„Helstu vísar um stöðu mála á fast­eigna­markaði gefa til kynna að eftir­spurn eftir í­búðar­hús­næði sé enn að dragast saman. Kólnun á fast­eigna­markaði þýðir þó ekki að hann sé frosinn eins og á árunum eftir hrun heldur virðast að­stæður líkari því sem var 2019 og 2020,“ segir í skýrslunni.

Bent er á það að í­búða­verð hafi hækkað um 0,6% á milli mánaða á höfuð­borgar­svæðinu miðað við vísi­tölu í­búða­verðs, en þar af lækkaði verð á sér­býli um 0,7% en verð á fjöl­býli hækkaði um 0,9%. Mælist tólf mánaða hækkun vísi­tölunnar fyrir höfuð­borgar­svæðið 21,5% og þar af hækkuðu í­búðir í fjöl­býli um 21,5% og sér­býli um 22,5%.

„Þótt það dragi hægt úr 12 mánaða verð­hækkunum þá er ljóst að dregið hefur veru­lega úr þeim þegar horft er yfir styttra tíma­bil. Þannig mælist sex mánaða hækkun vísi­tölunnar 7,5% á höfuð­borgar­svæðinu sem jafn­gildir 15,5% hækkun á árs­grund­velli saman­borið við 20,4% hækkun í septem­ber og 25,9% í ágúst. Sé horft á þriggja mánaða hækkun vísi­tölunnar hefur enn frekar dregið úr krafti hennar. Þannig nam hún 3,9% á árs­grund­velli í septem­ber en hafði verið 6,0% í októ­ber og 28,3% í júlí.“

Mynd/HMS