Nýsköpunarfyrirtækið Controlant gegndi lykilhlutverki í að þróa tækni sem nýttist Pfizer við dreifingu á bóluefni við Covid-19.

Tekjur hátæknifyrirtækisins Controlant tífölduðust á árinu 2021 og námu rúmlega 68 milljónum Bandaríkjadala eða um 9 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam um 24 milljónum dala eða um 3 milljörðum króna. Hagnaður af starfseminni nam 10,6 milljónum dala, eða tæpum 1,4 milljörðum króna, sem er verulegur viðsnúningur frá fyrra ári þegar 10,2 milljóna dala tap varð af rekstrinum.

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, segir að þó svo að við sjáum fyrir endann á Covid þá muni umsvif fyrirtækisins ekki minnka.

„Við búumst við tvöföldun á tekjum á þessu ári miðað við síðasta ár og áframhaldandi vexti hjá okkur."

„Fyrir Covid vorum við búin að semja við fimm stærstu lyfjafyrirtæki í heiminum og fleiri hafa bæst við í gegnum Covid. Þegar Covid rennur sitt skeið þá getum við einblínt á að uppfylla alla samninga sem við höfum og klára innleiðingar fyrir þessi stóru lyfjafyrirtæki,“ segir Gísli og bætir við að það hafi verið mikill undirliggjandi vöxtur hjá fyrirtækinu fyrir utan þann vöxt sem Covid hafði í för með sér.

„Við búumst við tvöföldun á tekjum á þessu ári miðað við síðasta ár og áframhaldandi vexti hjá okkur. Það er mikið í gangi og ekki alveg farið að hægjast á Covid strax. Við erum með okkar kjarnakúnnahóp og erum að hjálpa þeim að minnka sóun og sjálfvirknivæða dreifinguna. Við erum líka að fara inn á aðra markaði eins og matvælageirann. Það er mikið sem á eftir að ávinnast þar þegar kemur að því að minnka matarsóun og þar liggja tækifærin.“

Aðspurður hver sé lykillinn að framtíðarvexti fyrirtækisins segir Gísli að það sé að þróa tæknina enn meira, en stærstur hluti af rekstrarkostnaði þeirra fer í vöruþróun, að sögn Gísla.

„Við þurfum að auka vöruframboðið meira. Einnig að sækja fram í fleiri geirum.“