Í lok árs 2019 hlaut Krónan Svansvottun á verslunum sínum við Akra­braut og Rofa­bæ og voru það fyrstu verslanirnar á Ís­landi sem hlotið hafa Svansvottun. Nú ári síðar er loka­mark­miði um­hverfis­mark­miða þeirra fyrir árið 2020 náð með vottun allrar keðjunnar en fyrir­tækið setti sér það um­hverfis­mark­mið fyrir árið 2020 að fá slíka vottun fyrir allar verslanir.

„Um leið og Um­hverfis­stofnun gaf út þessi við­mið fyrir Svansvottun í verslunum þá fórum við að skoða þau. Þau eru í takt við þær á­herslur sem við höfum verið með í um­hverfis­málum,“ segir Hjör­dís Elsa Ás­geirs­dóttir, markaðs­stjóri Krónunnar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að á­herslur þeirra, og Svansvottunarinnar, séu marg­þættar og taki til­lit til matar­sóunar og flokkun úr­gangs, orku­notkunar, og fram­boðs líf­rænna og um­hverfis­vottaðra vara.

„Það er flott að vera með form­lega vottun á því starfi sem maður er að sinna. Það sé ó­háður aðili með mæli­kvarða sem maður upp­fyllir. Ekki að maður sé bara að segja að við séum að gera góða hluti, heldur sé að fara eftir réttum mæli­kvörðum. Það sem er svo frá­bært við Svansvottunina er líka að þetta er ekki eitt mark­mið sem þú þarft að ná, heldur er þetta lifandi vottun. Það kemur upp­færsla og ef það þykir eðli­legt að fyrir­tækið standi sig allt í einu enn betur á ein­hverju sviði þá herða þau við­miðin sín,“ segir Hjör­dís Elsa

Heldur þeim á tánum

Hún tekur sem dæmi fram­boð af um­hverfis­vottuðum eða líf­rænum vörum, sem er meðal skil­yrða Svansvottunarinnar, þá sé ó­eðli­legt fyrir verslun að vera með lítið úr­val.

„Þannig þetta heldur okkur á tánum að fylgja þessu. Þetta er sam­nor­rænt merki og það er gott að geta fylgt þeim sem eru að gera þetta vel á Norður­löndunum,“ segir Hjör­dís Elsa.

Þeir um­hverfis­þættir sem þarf að upp­fylla í Svansvottuninni eru minni matar­sóun, minni orku­notkun, bætt flokkun úr­gangs og aukið fram­boð að bæði um­hverfis­vottuðum og líf­rænum mat­vælum.

„Við notum bara um­hverfis­vottaðar vörur í rekstri og svo er tekið til­lit til orku­notkunar. Við notum LED-lýsingu og svo erum við með um­hverfis­vænna kæli­kerfi til að draga úr orku­notkun,“ segir Hjör­dís Elsa.

Vinna að halda vottun

Fyrstu Krónu­verslanirnar sem hlutu slíka vottun voru við Akra­braut og Rofa­bæ við lok árs 2019 en núna hafa allar verslanir Krónunnar hlotið slíka vottun og þannig mark­miðum verslunar­keðjunnar náð. Hjör­dís segir að það sé þó ekki endirinn því það er mikil vinna að halda vottuninni.

Hún segir að það séu miklar kröfur um skýrt verk­lag hvernig eigi að ná hverju mark­miði fyrir sig og svo hvernig því sé miðlað til við­skipta­vina. Hún tekur dæmi um matar­sóun.

„Það má til dæmis ekki hvetja til magn­inn­kaupa sem svo rennur út heima. Það verður líka að hugsa til þess að einingar séu ekki of stórar og þannig er hugsað fyrir alla keðjuna,“ segir Hjör­dís Elsa.

Hjör­dís Elsa segir að til að við­halda vottun þurfi þau að draga fram ný gögn og senda til Um­hverfis­stofnunar um orku­notkun, sorp­flokkun og annað slíkt.

„Sorpið er mælt sem hluti af veltu og það má ekki fara yfir á­kveðin við­mið,“ segir Hjör­dís Elsa.

Hún segir að Svansvottunin sé að­gengi­leg fyrir marga iðnaði eins og prent, húsa­smíði og annað og að það séu ólík við­mið fyrir hvern iðnað. Það sé mjög já­kvætt.

Kúnninn einn þeirra helsti hvati

Spurð um hvatann fyrir því að ganga til slíkrar vottunar fyrir fyrir­tækið segir Hjör­dís Elsa að það sé tví­þætt hjá krónunni.

„Fyrir nokkrum árum settum við okkur stefnu um þetta. Við erum stórt fyrir­tæki sem getum haft á­hrif og það er svo­lítið „mantran“ innan fyrir­tækisins. Að í krafti stærðar getum við haft á­hrif til góðs. En svo eru það við­skipta­vinirnir okkar sem eru mjög um­hverfis­með­vitaðir og hvetja okkur á­fram,“ segir Hjör­dís Elsa.

Hún tekur sem dæmi litlu plast­pokana sem voru alltaf í græn­metis­deild verslana þar til að um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra breytti lögum og skyldaði verslanir til að rukka fyrir alla poka. Hjör­dís segir að til­gangur laganna hafi verið að minnka plast­notkun og því hafi þau fjar­lægt pokana á meðan aðrir fóru að rukka.

„Það var ekki þannig að verslanir áttu að græða á þessu. Þetta var fyrir um­hverfið. En auð­vitað var ekki víst hvernig við­skipta­vinir myndu taka þessu. Því þetta er verk­efni sem við­skipta­vinurinn þarf að vinna með okkur. Svo var þessu tekið ó­trú­lega vel þrátt fyrir að fólk væri vant að setja nærri allt græn­meti og á­vexti í poka í svo langan tíma. En við­skipta­vinurinn var alveg til í að taka þátt í þessu líka,“ segir Hjör­dís Elsa.

Hún segir að þau finni mjög vel fyrir því að þegar þau taki skref í átt að betri um­hverfis­vernd þá finni þau ber­sýni­lega fyrir vel­vild við­skipta­vina.

„Við erum svo ná­lægt neytandanum. Fólk fer svo oft í búðina og þá finnur það að þarna getur það haft á­hrif. Þetta er ef­laust erfiðara fyrir fyrir­tæki sem eru ekki í svo miklum sam­skiptum við sína við­skipta­vini,“ segir Hjör­dís Elsa.

Svansvottun Krónunnar þýðir að:

Svansvottun er opin­bert og vel þekkt um­hverfis­merki á Norður­löndunum sem er meðal annars með það mark­mið að lág­marka um­hverfis­leg á­hrif á neyslu og fram­leiðslu vara.

20 prósent af öllum rekstrar­vörum sem Krónan selur eru um­hverfis­vottaðar (vottaðar með Svaninum eða Evrópu­blóminu)
4 prósent af matar- og drykkjar­vöru eru líf­rænt vottaðar
mark­viss á­hersla er lögð á að sporna gegn matar­sóun og flokkun er til fyrir­myndar
Virk orku­stefna sem dregur úr orku­notkun
Krónan notar einungis um­hverfis­vottaðar ræsti- og hrein­lætis­vörur fyrir eigin þrif og rekstur