Markmið nýsköpunarfyrirtækisins Atmonia er að búa til ammóníak sem búið er til úr nitri andrúmsloftsins, en nitur er um 78 prósent af andrúmsloftinu.

Ammóníakið er síðan notað til að framleiða áburð sem seldur er til bænda, eða eldsneyti, en brennsla ammóníaks losar engar gróðurhúsalofttegundir.

Fyrirtækið beitir rafefnafræðilegum aðferðum sem hægt er að nýta með til dæmis rafmagni, sólarorku eða vindorku. Með þessum hætti verður því hægt að framleiða áburð nálægt notendum og þarf því ekki að flytja áburðinn heimshorna á milli eins og í dag.

„Við finnum það að umhverfismál eru farin að skipta fjárfesta og almenning meira máli en þau gerðu hér áður. Í gegnum tíðina höfum við bara fundið fyrir góðum viðbrögðum enda byggir aðferð okkar á því að geta framleitt ammóníakið við stofuhita og venjulegan loftþrýsting og losar sú aðferð engan koltvísýring,“ segir Egill og bætir við að sú aðferð sé virkilega sjálfbær, en aðferðin sem notuð sé í dag þurfi ansi mikinn hita og loftþrýsting.

„Vandamálið við þá aðferð er að vetnið sem notað er við aðferðina er búið til úr jarðgasi sem losar 2 tonn af CO2 fyrir hvert tonn af ammóníaki, eða um 1 prósent af heildarlosun CO2 á heimsvísu. Í okkar aðferð kemur vetnið úr vatni en ekki jarðgasi, þannig að það er mjög umhverfisvænt og sjálfbært. Jarðgasið mun klárast á endanum og er sífellt að verða dýrara, sem endurspeglast í síhækkandi áburðarverði.“

„Þetta er mikil keðja af viðskiptavinum og við erum með mikið tengslanet um allan heim.“

Atmonia var stofnað af þeim Agli Skúlasyni, Helgu Dögg Flosadóttur og Arnari Sveinbjörnssyni árið 2016. Að sögn Egils kviknaði hugmyndin í kjölfarið á því að hann var beðinn um að taka þátt í viðskiptahraðlinum StartUp Energy Reykjavík.

„Við stofnuðum fyrirtækið í kjölfarið á þessum hraðli. Það var í raun ekkert planað og þetta gerðist allt mjög hratt.“

Egill segir að innan 3 ára stefni fyrirtækið að því að vera búið að þróa tæknina og tækin sem þarf til að framkvæma þetta.

„Það eru rannsóknarhópar úti um allan heim að reyna að þróa þetta í dag, en við erum líka að vinna í annarri aðferð sem snýst um að breyta ammóníaki í nítrat, sem er yfirleitt heppilegri áburður til matvælaræktunar. Það er styttra í að við getum framkvæmt það heldur en hina aðferðina.“

Egill segir að þau séu byrjuð að mynda tengsl við framleiðendur, orkufyrirtæki og bændur til að selja þeim afurðirnar þegar að því kemur. „Þetta er mikil keðja af viðskiptavinum og við erum með mikið tengslanet um allan heim.“