Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er stærsti hluthafi Brims (áður HB Granda), hélt lokað útboð á víxlum í tveimur flokkum föstudaginn 28. ágúst. Heppnaðist það mjög vel. Alls bárust tilboð á fjórða milljarð króna frá 15 aðilum. ÚR ákvað að taka tilboðum fyrir 2.520 milljónum króna á meðaltali 3,82% vöxtum. Arctica Finance var umsjónaraðili útboðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Aðstandendur útboðsins eru sérstaklega ánægðir með undirtektirnar í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir í alþjóðlegu efnahagslífi og þess að lítið sem ekkert hefur verið um útgáfu rekstrarfélaga á óveðtryggðum verðbréfum síðustu ár.

Aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur er Guðmundur Kristjánsson. Útgerðin leggur áherslu á arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með stefnumótandi fjárfestingum í kvóta og traustum sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi og Grænlandi hefur félagið byggt upp eignir að verðmæti um 440 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 72 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall félagsins er að jafnaði um 50 prósent.

Áhuginn lang umfram vonir

„Áhuginn var langt umfram vonir og sýnir það traust sem fjármálamarkaðurinn ber til félagsins. Á næstu misserum munum við vinna frekar með þessum aðilum og öðrum sem áhuga sýna og halda áfram þeirri vegferð sem hófst með þessu útboði,“ segir Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR.