Innlit á fasteignavef Morgunblaðsins hefur dregist saman um 30 prósent frá fyrstu vikunni í mars til síðustu viku. Páll Heiðar Pálsson fasteignasali greindi frá þessu í spjalli við Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í Bítinu á Stöð 2 og Bylgjunni í morgun.

Páll segir að samþykkt kauptilboð hafi verið 30 prósent færri frá fyrstu viku til síðustu viku. Hann segist hvorki eiga von á því að fasteignaverð lækki né fasteignasölur loki.

Áhyggjur um verðtryggð lán

Opin hús hafa verið lögð af þar sem mæting hefur verið lítil sem engin eftir samkomubann. Páll segir að vegna óvissu um ástandið sem ríkir á Íslandi vegna kórónaveirunnar séu margir hræddir um hvað verði um lán. Fólk hafi áhyggjur af því að verðtryggð lán muni rjúka upp.

Páll segist hafa haft svipaðar áhyggjur til að byrja með; hann sé sjálfur með tvö fasteignalán, annað þeirra verðtryggt, og hafi hann farið strax af stað að breyta því í óverðtryggt lán. Síðan hafi hann ákveðið að hinkra aðeins við og ræða við sérfræðinga hjá Seðlabankanum sem hafi fullvissað hann um ekki væru horfur á aukinni verðbólgu.

Fasteignaverð allt of hátt

Á undanförnum árum hefur íbúðaverð og leiguverð íbúða farið mjög hækkandi. Ungt fólk og tekjulágir eiga nú erfiðara með að eignast húsnæði en áður samkvæmt skýrslu starfshóps sem skipaður var af félags-og barnamálaráðherra.

Hlutfall þeirra sem leigja hefur því aukist þrátt fyrir að kannanir sýni að langflestir leigjendur myndu fremur kjósa að búa í eigin húsnæði. Heimir og Gunnlaugur veltu því upp hvort fasteignaverð væri einfaldlega of hátt þar sem ótalmargar nýbyggingar stæðu tómar og seldust ekki. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.