Þórður Gunnarsson
Miðvikudagur 1. júlí 2020
07.00 GMT

Magnús Harðarson tók við sem forstjóri Nasdaq Iceland í október síðastliðnum. Hann hefur starfað hjá Nasdaq á Íslandi frá árinu 2002 og var staðgengill forstjóra frá árinu 2011, en Páll bróðir Magnúsar gegndi forstjórastarfinu á árunum 2011-2019. Magnús segir að sú efnahagskrísa sem nú ríður yfir heiminn komi við Ísland á annan hátt en síðast: „Við erum ekki sér á báti eins og árið 2008, við höfum meira og minna fylgt sveiflunum erlendis,“ segir hann og bætir því við að velta í Kauphöllinni hafi haldist þokkaleg í gegnum verstu krísuna.

„Þegar faraldurinn kemur inn af fullum þunga þá hörfa flestir viðskiptavakar af hlutabréfamarkaði eins og þeir geta. Þeir segja ekki upp vaktinni, heldur nýta sér ákvæði í samningum til að draga sig út. Þeir nýta sér ákvæði rétt upp úr miðjum mars og verðbil kaup- og sölutilboða jókst töluvert. Það dró úr virkni markaðarins. Núna eru hlutirnir hins vegar komnir aftur í meira og minna samt horf,“ segir Magnús.


Umfang lífeyrissjóða


Fjárfestar og aðrir markaðsaðilar nefna reglulega að velta á íslenskum verðbréfamarkaði, einkum í hlutabréfum, þurfi að vera meiri svo að verðmyndun sé betri. Bent hefur verið á að risavaxin hlutdeild íslenskra lífeyrissjóða í skráðum félögum, kunni þar að eiga hlut að máli. Fjárfestingastefna lífeyrissjóðanna, sem byggist upp á langtímastöðutökum í félögum hefur þar nokkuð að segja.

„Lífeyrissjóðirnir okkar eru öflugir og ekkert nema gott um það að segja. Þeir starfa auðvitað innan ákveðins lagaramma og fjárfestingum þeirra eru settar ákveðnar skorður. En það getur samt ekki verið heilbrigt að það séu svona fáir ákvörðunaraðilar á verðbréfamarkaði. Með umfangi þeirra á markaði eru mikil völd sem safnast á fárra hendur. Þetta er ekki bara spurning um markaðinn, heldur líka mögulega samkeppnissjónarmið og valddreifingu. Það er gott að hafa sterka lífeyrissjóði en þeir eru alltumlykjandi á skráðum markaði á Íslandi,“ segir forstjórinn.

Hin hliðin á umfangi lífeyrissjóða á markaði, er takmörkuð bein þátttaka einstaklinga á hlutabréfamarkaði. „Töluverður hluti af launum fólks fer inn í lífeyrissparnað og í einhverjum tilfellum er ekki mikill afgangur af launum til að ráðstafa í fjárfestingar. Þess vegna höfum við bent á að það gæti verið snjallt að fólk fái að ráðstafa séreignasparnaði inn á sérstaka fjárfestingareikninga, sem yrðu helgaðir skráðum verðbréfum,“ segir Magnús.

„Ef við lítum á heildarveltu sem hlutfall af markaðsvirði, þá erum við á svipuðum stað og hin Norðurlöndin. Hins vegar er það svo að hlutfall stórra viðskipta milli tveggja aðila sem eiga sér stað í gegnum síma, frekar en í gegnum tilboðshliðarnar á markaðnum, er hærra hér en á hinum Norðurlöndunum.“


MSCI breytir miklu


Nokkur tíðindi voru í síðustu viku þegar tilkynnt var að Ísland yrði tekið inn í vaxtarvísitölu MSCI, en fyrirtækið er einn stærsti útgefandi vísitalna á heimsvísu. Hlutabréfaverð tók kipp upp á við í kjölfarið, en vænst er jákvæðra áhrifa vegna þessa á hlutabréfaverð hérlendis. Ýmsir verðbréfasjóðir erlendis fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar og því gæti innflæði erlends fjármagns átt sér stað á markaðinn hérlendis, vegna þessarar breytingar.

„Stærsti sjóður sem ég veit af sem fjárfestir í samræmi við vaxtarvísitölu MSCI, er í rekstri Blackrock og er um 50 milljarðar að stærð. Það myndi þá þýða innflæði upp á 2-3 milljarða króna. Ég held hins vegar að þessi flokkun Íslands inni í vísitölunni muni laða að ýmsa aðra fjárfesta en vísitölusjóði og hin óbeinu áhrif verði meiri. Það er auðvitað ekki hægt að áætla það með raunhæfum hætti, en það kæmi mér á óvart ef það væri undir nokkrum tugum milljarða króna,“ segir Magnús.


Það er gott að hafa sterka lífeyrissjóði en þeir eru alltumlykjandi á skráðum markaði á Íslandi.
Ísland á meira inni


Hann telur þó að íslenski markaðurinn eigi töluvert inni þegar kemur að hlutdeild í erlendum vísitölum: „Ég tel að við höfum komið inn í vísitölu MSCI á of lágu þrepi. Við erum með gæði sem ættu að setja okkur í næsta gæðaflokk fyrir ofan. Ástæðuna fyrir því að við förum inn í þessa vísitölu á þessu stigi nú, tel ég að sé sú að við erum nýkomin út úr gjaldeyrishöftum, það eru ekki nema 12 ár síðan þeim var komið á og þau voru bara nýlega afnumin að fullu. MSCI hafði áður vísað í áhyggjur erlendra fjárfesta gagnvart höftunum. Við höfðum auðvitað farið yfir hina sterku stöðu hagkerfisins; sterka skuldastöðu hvernig sem það er brotið upp, góðan gjaldeyrisforða og svo framvegis. Svo má auðvitað nefna að stærsta útflutningsgreinin, ferðaþjónustan, stöðvaðist algjörlega í apríl og enginn talaði um gjaldeyrishöft. Seðlabankinn greip meira að segja inn í markaðinn í maí til að koma í veg fyrir að krónan styrktist of mikið. Þetta eykur trúverðugleika markaðarins mikið.“


Skráningar banka mikilvægar


Magnús nefnir að stækkun markaðarins með skráningu fyrirtækja í stærri kantinum gæti haft mikið að segja. Skráningar Íslandsbanka og Landsbanka skiptu þar mestu máli. „Að fá inn þessa stóru bita í Kauphöllina myndi breyta ásýnd markaðarins, enda byrja fjárfestar oft á því að fjárfesta í þessum stærri fyrirtækjum, eins og Marel og Arion banka. Þegar fjárfestarnir eru komnir inn eru þeir miklu líklegri til að auka sínar stöður í minni, skráðum fyrirtækjum. Ég held að skráningar ríkisfyrirtækja á borð við Isavia myndu líka hjálpa.“

Íslandsbanki hafði fyrirhugað skráningu í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. „Það gæti frestast um allt að ár, en það er líka hægt að horfa til markaðsvirðis Arion banka til að gera sér betur grein fyrir hvenær Íslandsbanki gæti komið inn á markað,“ segir Magnús.

Þegar gengi Arion banka er komið nálægt því sem var fyrir krísuna sem hófst í mars, þá gætu hagsmunaaðilar séð fyrir sér að tækifæri væri að myndast til að skrá Íslandsbanka, bætir hann við.

Hvað varðar aðrar skráningar en Íslandsbanka, segir Magnús að öll slík plön séu á ís um þessar mundir. Á það einkum og sér í lagi við fyrirtæki tengd ferðaþjónustu. „Þó verður líka að nefna fyrirtæki sem koma sterk eða jafnvel sterkari út úr COVID-krísunni, til að mynda fyrirtæki á sviði líftækni, heilbrigðisþjónustu og rekstur sem snýr að fjarþjónustu og tæknilausnum af ýmsu tagi. Þar gætu leynst tækifæri.“


Skortsala nauðsynleg


Samkvæmt túlkun Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2007, er lífeyrissjóðum óheimilt að lána verðbréf, þar sem slík aðgerð er ekki tiltekin sem heimil fjárfesting samkvæmt lögum um lífeyrissjóði. „Ég er ekki sammála þessari afstöðu, þar sem verðbréfalán er ekki fjárfesting, en þetta er staða mála í dag,“ segir Magnús.

„Annað mál er að heimildir verðbréfasjóða til að lána bréf eru mun takmarkaðri en það sem tíðkast í Evrópu. Að mínu mati þyrfti að gera bragarbót á þessu þar sem verðbréfa­lán stuðla að betri verðmyndun á markaði, meðal annars þar sem þau auðvelda viðskiptavakt og greiða fyrir skortsölu. Í Evrópu er litið á verðbréfalán sem hluta af skilvirkri eignastýringu, á meðan túlkunin hér snýr frekar að áhættustýringu. Það er rakið mál að lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir geti lánað bréf, þar sem þeir eru langtímafjárfestar og sitja gjarnan á þeim bréfum sem þeir eiga til lengri tíma. Í þóknunum af verðbréfalánum felast líka tekjutækifæri fyrir sjóðina. Svo geta þeir auðvitað alltaf kallað bréf til baka úr láni ef aðstæður kalla á það,“ segir forstjórinn.


Að mínu mati þyrfti að gera bragarbót á þessu þar sem verðbréfa­lán stuðla að betri verðmyndun á markaði, meðal annars þar sem þau auðvelda viðskiptavakt og greiða fyrir skortsölu.


Magnús nefnir einnig að staða íslenskra markaðarins innan erlendra hlutabréfavísitalna, markist meðal annars af lagaumhverfi og virkni verðbréfalána og skortsölu:

„Þar eru innri skilyrði hjá bæði FTSE og MSCI um virkni verðbréfa­lána og skortsölu á markaði. Það þarf lagabreytingu gagnvart verðbréfasjóðunum. Varðandi lífeyrissjóðina þarf að mínu mati strangt til tekið ekki lagabreytingu, en ég held að það væri æskilegt að búa lífeyrissjóðum skilgreindan ramma um verðbréfalán með lagasetningu,“ segir hann.


Auka þarf hlutdeild heimila


Þegar litið er á beina eigendur skráðra hlutabréfa á Íslandi eiga einstaklingar og heimili aðeins um 4% af heildinni. Í Svíþjóð er þetta hlutfall margfalt hærra, en hins vegar er lengri hefð þar fyrir fjárfestingum einstaklinga í hlutabréfum, samanborið við Ísland. Magnús nefnir að hrun íslenska fjármálamarkaðarins hafi vissulega ekki aukið áhuga Íslendinga á hlutabréfafjárfestingum á Íslandi.

Að sama skapi hafa verið skattalegir hvatar til að fjárfesta í húsnæði á síðustu árum með lagabreytingu um séreignasparnað.

Magnús bendir á að þegar litið er á beina eigendur skráðra hlutabréfa á Íslandi eiga einstaklingar og heimili aðeins um 4% af heildinni. Í Svíþjóð er þetta hlutfall margfalt hærra

„Svo er líka skattalega hagkvæmt að borga sem mest í lífeyrissjóði fyrir þá sem geta notað séreignarsparnað til húsnæðiskaupa, en fjármunir sem einstaklingar hefðu mögulega ráðstafað í hlutabréfafjárfestingar í eigin nafni enda þar, í séreignasparnaði lífeyrissjóðanna.“


Erlendir fjárfestar hverfa


Á síðustu misserum hefur borið á því að erlendir fjárfestar hafi selt sig út úr skráðum félögum á Íslandi, að Marel undanskildu. Magnús segir að margþættar skýringar séu á því. Meðal annars úttektir úr þeim sjóðum sem áttu hluti í skráðum félögum á Íslandi. Að sama skapi hafi almennt versnandi efnahagshorfur dregið úr áhættusækni fjárfesta og meiri sókn í seljanlegri eignir.


Bandarísk ríkisbréf eru til dæmis talin seljanlegri og öruggari eign en íslenskt hlutabréf. Magnús segir að sérstaklega á undanförnum misserum hafi nánast verið órökrétt mikil sókn í Bandaríkjadali: „Til dæmis hefur dollarinn haft ákveðna fylgni við COVID-19, þegar horfur versnuðu með COVID-19 á heimsvísu, þá hækkaði dollarinn.“


Skráningar auki sátt


Sátt um skipan sjávarútvegsmála á Íslandi, eða öllu heldur skortur á sátt, er sífellt til umræðu á Íslandi. Þegar mest var voru 19 sjávarútvegsfyrirtæki skráð á markað á Íslandi. Í dag er Brim eina íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem er skráð í Kauphöll.

Magnús nefnir að skráning sjávarútvegsfyrirtækja hefði í för með sér tækifæri fyrir alla Íslendinga til að eignast hlut í sjávarauðlindinni. „Það þýddi að eignarhald á aflaheimildum myndi dreifast víðar um þjóðfélagið, sem gæti skapað aukna sátt um núverandi kerfi."

Athugasemdir