Til að Ísland nái markmiðum Parísarsamkomulagsins um samdrátt útblásturs gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum fram til ársins 2030, þarf að bæta við uppsettu afli sem nemur 300 megavöttum á næstu tíu árum. Það þýðir að auka þarf uppsett afl á Íslandi um tíu prósent næsta áratuginn. Þetta er niðurstaða greiningar sem unnin var fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, en samtökin héldu ársfund sinn í Hörpu í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun koma tveir virkjanakostir einkum til greina, sem hugsaðir eru til að anna aukinni eftirspurn tengda orkuskiptum á næstu árum. Er þar í báðum tilfellum um að ræða umdeilda virkjanakosti á Þjórsársvæðinu, sem er nú þegar stærsta aflsvæði Landsvirkjunar. Báðir kostir eru fullhannaðir og hægt að ráðast í uppbyggingu á þeim með skömmum fyrirvara, samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun. „Landsvirkjun mun án vafa leika lykilhlutverk í orkuvinnslu þjóðarinnar áfram og fylgjast vel með þróuninni í orkuskiptum,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Í fyrsta lagi er um að ræða Hvammsvirkjun. Samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar yrði sú virkjun ámóta Búðarhálsvirkjun, með tilliti til uppsetts afls, eða 93 megavött. Orkuvinnsla Hvammsvirkjunar yrði þó um fjórðungi meiri, eða um 720 megavattstundir á ári. Hvammsvirkjun var færð í nýtingarflokk árið 2015. Hins vegar skilaði Skipulagsstofnun af sér áliti árið 2018 þar sem fram kom að umhverfisáhrif virkjunarinnar yrðu verulega neikvæð. Virkjunin myndi nýta frárennsli Búrfellsvirkjunar sem er staðsett ofar í Þjórsá og því er hægt að stýra rennsli, og þar með lónstöðu Hvammsvirkjunar, með nokkurri nákvæmni.

Í annan stað er um að ræða Búrfellslund þar sem fyrirhugað er að reisa allt að 30 vindmyllur, sem gætu skilað allt að 120 megavöttum af uppsettu afli. Búrfellslundur er hins vegar í biðflokki sem stendur, en endurhönnun þessa virkjanakosts er nú til skoðunar í fjórða áfanga rammaáætlunar.Þessir tveir virkjanakostir gætu því skilað allt að 213 megavöttum af uppsettu afli og færu því langt með að uppfylla þá orkuþörf sem Samorka telur að sé fyrir hendi, til að markmið Parísarsamkomulagsins um minnkun útblásturs vegna samgangna náist.

Parísarsamkomulagið miðar meðal annars að því að draga úr útblæstri vegna samgangna á landi um 21 prósent, miðað við heildarlosun árið 2005. Útblástur vegna samgangna á landi hefur hins vegar aukist nokkuð síðan þá, ekki síst vegna mikillar aukningar í akstri ferðamanna hér á landi. Því þarf samdráttur útblásturs gróðurhúsalofttegunda á Íslandi nú að nema um 37 prósentum á næstu tíu árum. Samorka áætlar að ef áðurnefndur 37 prósenta samdráttur næst að fullu, muni þjóðarbúið spara sér 20 til 30 milljarða á ári vegna minni innflutnings á eldsneyti, þó að sú tala sé vitaskuld háð olíuverði á hverjum tíma.

En það er vitaskuld ekki nóg að byggja bara upp virkjanir til að draga úr útblæstri, því bílafloti landsins þarf einnig að endurnýjast á sama tíma. Samorka áætlar að á árinu 2030 þurfi tveir af hverjum þremur bílum á götunni á Íslandi að vera rafknúnir, eða um 145 þúsund bílar.Í dag samsvarar samanlagður fjöldi rafmagnsbíla, tvinnbíla og metanknúinna bíla, innan við tíu prósentum af bílaflota landsins. Þau vatnaskil urðu hins vegar í febrúar á þessu ári að í fyrsta sinn varð fjöldi nýskráðra bíla knúinn endurnýjanlegum orkugjöfum meiri en þeirra sem nota bensín eða dísil sem eldsneyti.Það sem af er ári eru nýskráningar bensín- og dísilbíla nokkurn veginn jafnar skráningu allra annarra tegunda bíla, samkvæmt tölfræði Samgöngustofu.

Til viðbótar við þær virkjanir sem þyrftu að rísa til að anna aukinni eftirspurn rafmagns, áætlar Samorka að fjárfesta þurfi fyrir 15 milljarða á ári næstu tíu árin í ýmsum raforkuinnviðum, svo sem hleðslustöðvum fyrir rafbíla, til að markmiðin náist. Í nýlegri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er meðal annars vikið að uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla. Fyrirhugað er að verja 1,75 milljarði króna á fimm ára tímabili til ársloka 2023 til „uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum.“

Töluvert virðist bera á milli í fjárfestingaþörf samkvæmt mati Samorku og þeirra fjármuna sem hið opinbera hefur eyrnamerkt uppbyggingu innviða. Þó verður að hafa í huga að ekki er endilega augljóst að hið opinbera þurfi að standa að baki allri þeirri fjárfestingu sem þörf er á. Þannig er það líka hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda að fella niður virðisaukaskatt á heimahleðslustöðvar fyrir rafbíla.

En engu að síður virðist mat Samorku sýna að nokkuð vanmat sé fyrir hendi á fjárfestingaþörf vegna raforkuinnviða í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.