Viðskiptamaður ársins árið 2021 er Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, fyrir að hafa ráðist í umfangsmiklar breytingar á rekstri bankans með þeim árangri að afkoma hans hafi stóraukist en á þessu ári hefur hlutabréfaverð bankans tvöfaldast.

„Benedikt var ráðinn um mitt árið 2019 og hefur heldur betur látið til sín taka. Hann er í raun búinn að umbylta bankanum og hefur gert hann gríðarlega arðsaman. Hann hefur leitt bankann í gegnum mikið breytingarskeið í átt að mun hærri arðsemismarkmiði á sama tíma og Covid-19 bylgjan reið yfir. Benedikt hefur víða komið við og á afskaplega farsælan feril að baki hvar sem hann hefur komið við,“ segir í rökstuðningi frá einum af þeim sem skipa dómnefnd Markaðarins.

„Ekkert sem bendir til að þarna séu neinar tilviljanir, heldur er verið að fylgja stefnu sem var teiknuð upp skömmu eftir að hann tók við, stefnan var öllum kynnt og svo er þetta klárað enn betur en stefnt var að."

Hlutabréf í Arion banka hafa hækkað mest af öllum hlutabréfum í Kauphöllinni á árinu eða yfir 90 prósent. Margir sem sátu í dómnefnd Markaðarins nefndu að Benedikt hefði bætt rekstur Arion svo um munar frá því að hann tók við starfinu sem sést best á gengi félagsins í Kauphöllinni.

„Viðsnúningur og árangur Arion banka, síðan Benedikt Gíslason og Ásgeir Reykfjörð Gylfason tóku við stjórn bankans, er ekkert annað en stórkostlegur,“ kemur fram í rökstuðningi eins álitsgjafa Markaðarins.

„Ekkert sem bendir til að þarna séu neinar tilviljanir, heldur er verið að fylgja stefnu sem var teiknuð upp skömmu eftir að hann tók við, stefnan var öllum kynnt og svo er þetta klárað enn betur en stefnt var að. Sömuleiðis virðist ekkert af þessu vera einskiptis árangur eða neitt í rekstri bankans vera brothætt. Þvert á móti eru meira og minna allar einingar að skila góðri arðsemi, afkoman er byggð á breiðum grunni og reksturinn í afar traustum skorðum,“ bætir hann við.

Flestir þeirra sem tilnefndu Benedikt sem viðskiptamann ársins nefndu að jákvæðar afkomuviðvaranir og hlutabréfahækkun styddu þá ákvörðun að Benedikt sé viðskiptamaður ársins.

„Salan á Valitor á árinu, á verði langt umfram væntingar markaðarins, er auka rós í hnappagat Benna og hans teymis hjá bankanum,“ sagði einn álitsgjafanna.„Benedikt hefur á stuttum tíma leitt viðsnúning á rekstri bankans og aukið arðsemi meðal annars með því að nýta betur efnahagsreikninginn. Á sama tíma hefur verið haldið áfram að bæta þjónustu með því að leggja áherslu á áframhaldandi þróun á stafrænum lausnum,“ segir annar.

Þá er Benedikt sagður hafa náð eftirtektarverðum árangri í rekstri bankans eftir mögur ár á undan. „Benedikt hefur á skömmum tíma í nánu samstarfi við aðstoðarforstjóra sinn, Ásgeir Helga Reykfjörð Gylfason, gjörbylt rekstrarmódeli og stefnu bankans, tekið mikið til í eigna- og lánasafni hans, bætt afkomu hans og náð miklum árangri í að breikka hluthafahóp hans,“ segir í einum rökstuðningi.

Nokkrir álitsgjafar nefndu hversu mikill viðsnúningur hefði orðið á rekstri bankans síðan hann tók við sem bankastjóri.

Jón í Stoðum hafi sýnt dug, þor og framsýni

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hefur náð eftirtektarverðum árangri í íslensku viðskiptalífi á árinu. Hann hafnaði í öðru sæti í vali dómnefndar Markaðarins á viðskiptamanni ársins.

„Jón Sigurðsson ætti þennan heiður skilið fyrir stöðuga verðmætaaukningu í íslensku atvinnulífi með áhrifa-fjárfestingum Stoða. Verðmætaaukning sem verður ekki til af sjálfu sér heldur með úthugsaðri stefnumótun áður en þeir kaupa sig inn í félög,“ segir í rökstuðningi eins af álitsgjöfum Markaðarins.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða.

„Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans. Hann hefur verið virkur gerandi á íslenskum fjármálamarkaði um margra ára skeið. Í ár hafa Stoðir vaxið verulega vegna vel heppnaðra viðskipta og vegna virkrar þátttöku Stoða að fjárfestingum félagsins. Stoðir hafa á árinu fjárfest í nýjum verkefnum sem líkleg eru til þess að efla íslenskt atvinnulíf. Sala Símans á Mílu, sem nú stendur yfir, skapar mikið virði fyrir hluthafa Símans. Það fé, sem kemur erlendis frá, mun á endanum leita í fjárfestingar, annað hvort á vegum Símans eða á vegum hluthafa Símans. Þannig mun íslenskt atvinnulíf dafna enn frekar,“ segir annar.

Þeir álitsgjafar sem tilnefndu Jón sögðu að hann hafi sýnt mikinn dug, þor og framsýni með að hefja og klára söluferli Símans á innviðum sínum, Mílu. Þá segir að hann hafi jafnframt stýrt Stoðum gríðarlega vel og haft áhrif í gegnum stjórnarsetu fyrirtækjanna sem hann hefur fjárfest í.

„Fjárfestingar þeirra á skráða markaðnum (Arion, Kvika, Síminn) hafa skilað að meðaltali 67 prósent ávöxtun það sem af er ári (vísitalan 28 prósent). Hefur leitt félagið í að vera stærsta, og áhrifamesta, fjárfestingafélagið á landinu. Það eru fáir dílar sem fara ekki á einhverjum tímapunkti í gegnum Suðurgötuna.“

Vöxtur Controlant ævintýri líkastur

Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Controlant, hafnaði í þriðja sæti í vali dómnefndar Markaðarins á viðskiptamanni ársins.

Controlant spilaði stórt hlutverk við dreifingu bólefnis við Covid-19 um allan heim en félagið er að miklu leyti í eigu íslenskra fjárfesta.

„Gísli hefur, ásamt öðrum, byggt upp Controlant úr engu með góða hugmynd að vopni. Félagið hefur blómstrað í Covid, en notkun vöru þeirra við dreifingu bóluefna hefur valdið sprengingu í veltu félagsins,“ segir í rökstuðningi eins álitsgjafa Markaðarins.

Gísli Herjólfsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Controlant.

Þeir sem tilnefndu Gísla nefndu að áralöng þolinmæli og þrautseigja hefði skilað sér í góðum árangri fyrirtækisins á árinu og mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims séu viðskiptavinir fyrirtækisins í dag.

„Gísli og hans teymi hafa byggt upp félag sem er nú í fremstu röð í heiminum á sínu sviði,“ segir einn álitsgjafa Markaðarins.

„Árið 2020 var gríðarstórt í sögu félagsins þar sem stórir samningar við lyfjarisa í tengslum við dreifingu á bóluefni við Covid-19. Árið 2021 var ekki síður krefjandi þar sem verkefnin eru stór en félagið stóð sig með prýði, stækkaði, bætti við sig starfsfólki og uppfyllti stóra samninga. Það verður spennandi að fylgjast með félaginu í framhaldinu.“

Fram kemur í rökstuðningi margra í dómnefndinni að vöxtur Controlant hafi verið ævintýri líkastur og markaðsvirði fyrirtækisins hafi um það bil fimmfaldast á einu ári og að mikils sé að vænta af fyrirtækinu í komandi framtíð.

„Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með íslensku fyrirtæki spila stórt hlutverk í því að vakta bóluefni Pfizer.“

Annar álitsgjafa Markaðarins sagði að Gísli hefði staðið sig gífurlega vel og tekist að byggja upp félag í fremstu röð á sínu sviði.