Líkt og undanfarna mánuði endurspeglast farþegatölur Icelandair Group í mars af stöðu COVID-19 faraldursins á mörkuðum félagsins og þeim ferðatakmörkunum sem eru í gildi á landamærum. Fraktflutningar jukust á milli ára í mars. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir marsmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.
Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair var um 7.800 í mars og dróst saman um 94% á milli ára. Fjöldi farþega til Íslands var um 4.300 og fjöldi farþega frá Íslandi um 3.300. Heildar sætaframboð í millilandaflugi dróst saman um 89% á milli ára. Sætanýting félagsins var 27,7% í marsmánuði samanborið við 61,9% í mars á síðasta ári. Undanfarna mánuði hefur félagið nýtt Boeing 767 vélar á ákveðnum leiðum í stað Boeing 757 véla í þeim tilgangi að auka fraktrými um borð sem leiðir til lakari sætanýtingar.
Fjöldi farþega Icelandair í innanlandflugi var um 16.000 í mars og fjölgaði farþegum um 52% á milli ára. Framboð í innanlandsflugi jókst um 36% á milli ára. Rétt er að geta þess að farþegar í flugi til og frá Grænlandi teljast nú með farþegum í millilandaflugi eftir að samþættingu Icelandair og Air Iceland Connect lauk um miðjan mars. Tölum fyrir síðasta ár hefur verið breytt til samræmis.
Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 30% á milli ára í mars. Aftur á móti jókst flutningastarfsemi félagsins um 36% á milli ára í marsmánuði og hefur nú aukist um 12% á milli ára það sem af er ári.