Nýverið gaf Viðskiptaráð út skýrsluna The Icelandic Economy en hún inniheldur skammtímahagvísa um íslenskt efnahagslíf og er ætlað að vera til upplýsingar fyrir erlenda aðila um stöðu íslenska hagkerfisins.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, segir að sumir skammtímahagvísar gefi tilefni til mikillar bjartsýni. Júní síðastliðinn hafi til að mynda verið vinsælasti ferðamannamánuðurinn í þrjú ár og flugframboð hafi aukist til muna. Þá hafi kortavelta Íslendinga erlendis rokið upp úr öllu valdi og sé nú 150 prósentum meiri en fyrir ári.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði.
Aðsend mynd.

„Það er ákveðin afleiðing þess að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist í gegnum faraldurinn,“ segir Elísa og bætir við að það sé að vissu leyti ótrúlegt að ráðstöfunartekjurnar séu 6 prósentum hærri nú en þær voru í upphafi faraldursins þó svo þær hafi lækkað lítillega á síðustu mánuðum.

„Það þarf að taka mið af því að við stöndum heilt yfir ágætlega þrátt fyrir þessi áföll sem hafa riðið yfir undanfarið en auðvitað hefur farsóttin og stríðið í Úkraínu haft áhrif.“

Staðreyndin sé sú að verðbólgan standi í 8,8 prósentum og hefur ekki verið svo mikil lengi, stýrivextir munu halda áfram að hækka samhliða og miklar hækkanir hafi verið á húsnæðismarkaði.

„Það eru þó vísbendingar um að það sé farið að hægja á hækkunum. Bæði hefur sölutími fasteigna lengst og íbúðum, sem seljast yfir ásettu verði, hefur fækkað.“

Í skýrslunni kemur fram að það hafi aldrei verið fleiri á vinnumarkaði og 54 prósent fyrirtækja telji að þau skorti vinnuafl. Elísa bendir á að um sé að ræða alheimsvandamál og skorturinn sé þvert á alla geira.

„Það erum ekki bara við sem stöndum frammi fyrir þessum skorti. Hann er mjög víða og við sjáum bara ástandið á flugvöllum í Evrópu. Heathrow og Schiphol eru að biðla til flugfyrirtækjanna um að selja ekki fleiri ferðir því þau hafa bara ekki undan að taka við öllum þessum ferðamannastraumi.“

„Það er mikilvægt að vernda kaupmáttinn og að semja af skynsemi í komandi kjaraviðræðum."

Hún bætir við að þetta ástand geti smitað út frá sér og það hafi í raun ekki verið jafn mikill skortur á vinnuafli síðan 2007. Atvinnuleysi standi nú í 3,5 prósentum sem hafi ekki verið viðbúið eftir rúm tvö ár af heimsfaraldri.

„Það er mikilvægt að vernda kaupmáttinn og að semja af skynsemi í komandi kjaraviðræðum. Það er mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins gangi í takt og semji ekki um launahækkanir sem séu umfram framleiðniaukningu, því sé það ekki gert myndast ákveðin hætta á víxlhækkun launa og verðlags.“

Elísa segir þó að hún búist sterklega við því að það náist breið samstaða um skynsamlegar launahækkanir.

„Það eru hagsmunir fólksins í landinu, atvinnulífs og verkalýðsins að það sé samið skynsamlega svo framleiðniaukningin skili sér til fólksins í landinu og fyrirtækja.“