Kostnaður Festar af störfum sérstaks kunnáttumanns, sem fylgist með því að skilyrðum í sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa N1 á Festi sé fylgt eftir, nam samanlagt tæplega 33 milljónum króna í fyrra. Þetta kom fram í kynningu Margrétar Guðmundsdóttur, stjórnarformanns Festar, á aðalfundi félagsins á mánudag.

Umræddur kunnáttumaður, Lúðvík Bergvinsson héraðsdómslögmaður, var skipaður af Samkeppniseftirlitinu í kjölfar þess að N1 og eftirlitið náðu samkomulagi um sátt vegna kaupa olíufélagsins á Festi í lok júlí árið 2018. Af sáttinni leiddi að skipa þurfti óháðan kunnáttumann sem ætlað er að hafa eftirlit með þeim aðgerðum sem kveðið er á um í sáttinni.

Á meðal þeirra verkefna sem Lúðvík hefur komið að eru söluferli Dælunnar og verslana Kjarvals á Hellu og Krónunnar á Hvolsvelli.

Fram kom í kynningu Margrétar að heildarkostnaður Festar af störfum Lúðvíks hefði numið tæplega 41 milljón króna á síðari hluta árs 2018 og í fyrra. Samkvæmt áðurnefndri sátt lýkur störfum hans sumarið 2023.

Óskaði eftir aðstoð

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafnaði fyrr í mánuðinum kröfu Festar um að felld yrði úr gildi sú ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að leyfa Lúðvík að afla sér utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar vegna mats á skilmálum og verðskrá Olíudreifingar, sem er að hluta í eigu N1.

Lúðvík óskaði eftir umræddri aðstoð í september í fyrra en hann sagðist í erindi sínu skorta þá þekkingu á olíuviðskiptum og olíudreifingu sem nauðsynleg væri til þess að meta hvort skilmálar Olíudreifingar féllu að áðurnefndri sátt N1 og Samkeppniseftirlitsins. Eftirlitið féllst á beiðnina í nóvember og var sú ákvörðun í kjölfarið kærð af Festi til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Utanaðkomandi ráðgjöf nauðsyn

Forsvarsmenn Festar báru því við að Lúðvík hefði fullnægjandi möguleika á því að sinna eftirliti sínu án utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar eins og sakir stæðu.

Áfrýjunarnefndin taldi hins vegar ekki tilefni til þess að draga í efa það mat Lúðvíks að utanaðkomandi ráðgjöf væri nauðsynleg til þess að eftirliti hans yrði sinnt með fullnægjandi hætti og hafnaði kröfu Festar. – kij