Gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hækkuðu mest á tímabilinu 2019 til 2022 hjá Borgarbyggð, um 20,2 prósent eða 5.985 krónur á mánuði en lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, um 19,9 prósent eða 4.914 krónur á mánuði. Leikskólagjöld hækkuðu mest hjá Seltjarnarnesbæ, um 24,2 prósent eða 6.590 kr. á mánuði en lækkuðu mest hjá Mosfellsbæ, um 10,6 prósent eða 3.428 kr. á mánuði.
Það kemur fram í nýju verðlagseftirliti ASÍ þr sem tekið er saman breytingar á leikskólagjöldum, skóladagvistunargjöldum og skólamat frá 2019 til 2022 hjá fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins.
Í samantekt ASÍ kemur fram að ef samanlögð gjöld fyrir þjónustu fyrir börn hjá vísitölufjölskyldu eru skoðuð, það er gjöld hjá fjölskyldu með eitt barn á grunnskólaaldri í skóladagvistun og skólamat og eitt barn í leikskóla, má sjá að þau hafa hækkað mest hjá Seltjarnarnesbæ, um 21,6 prósent eða 139.117 krónur á ári.
Hjá Fjarðabyggð hafa sömu gjöld hins vegar lækkað um 8,5 prósent eða 50.903 krónur á ári.
Miðað er við samanlögð gjöld fyrir skóladagvistun (þrír tímar á dag), með síðdegishressingu og skólamat fyrir grunnskólabarn og átta tíma vistun á leikskóla m. fæði fyrir barn á leikskóla.
Skóladagvistun og skólamatur hækkar mest í Borgarbyggð
Samanlögð gjöld fyrir þjónustu fyrir barn á grunnskólaaldri, skóladagvistun með síðdegishressingu og skólamat, hækkuðu í 13 sveitarfélögum af 15 frá 2019 til 2022, um 0,2 til 20,2 prósent samkvæmt samantekt ASÍ.
Hlutfallslega hækkuðu heildargjöld mest hjá Borgarbyggð, 20,2 prósent eða um 5.985 kr. á mánuði. Það gerir 53.865 kr. á ári miðað við níu mánaða vistun.
Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Seltjarnarnesbæ, 19,3 prósent eða 7.403 kr. á mánuði sem er mesta hækkun í krónum talið, 66.627 kr. á ári. Gjöldin lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, 19,9 prósent eða um 4.914 kr. á mánuði sem gerir 44.226 kr. á ári.
Leikskólagjöld hækka mest hjá Seltjarnarnesbæ
Almenn leikskólagjöld, miðað við átta tíma vistun og fæði, hækkuðu í flestum sveitarfélögum eða í 12 af 15.
Mest hækkuðu almenn leikskólagjöld hjá Seltjarnarnesbæ, um 24,2 prósent. Hækkunin nemur 6.590 kr. á mánuði eða 72.490 kr. á ári miðað við 11 mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Akraneskaupstað og Ísafjarðarbæ, um 11 prósent hjá hvoru sveitarfélagi fyrir sig.
Gjöldin lækkuðu hjá tveimur sveitarfélögum, mest hjá Mosfellsbæ um 10,6 prósent eða 3.428 krónur á mánuði. Næst mest lækkuðu gjöldin hjá Fjarðabyggð um 1,8 prósent eða 6.677 kr. á mánuði en gjöldin stóðu í stað á tímabilinu hjá Vestmannaeyjabæ.
Aukinn kostnaður með einu barni í leikskóla og einu í grunnskóla
Frá árinu 2019 hefur samanlagður kostnaður vísitölufjölskyldunnar vegna þjónustu fyrir börn, það er kostnaður foreldra með eitt barn í leikskóla og eitt í grunnskóla hækkað mest hjá Seltjarnarnesbæ um 21,6 prósent eða 139.117 krónur á ári sé miðað við 11 mánaða vistun á leikskóla og 9 mánuði í skóladagvistun og skólamat.
Næst mest hafa gjöldin hækkað hjá Borgarbyggð, um 12,6 prósent eða 85.006 á ári. Þar á eftir kemur Akraneskaupstaður með 11,8 prósent hækkun eða 82.618 krónur á ári.
Ef litið er til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu má sjá að gjöldin hafa hækkað um 9,8 prósent hjá Kópavogsbæ eða sem nemur 64.653 krónum á ári. Hjá Reykjavíkurborg hafa samanlögð gjöld fyrir leikskóla, skóladagvistun og skólamat hækkað um 9,3 prósent eða 49.573 krónur á ári og hjá Garðabæ nemur hækkunin 8,9 prósent eða 68.908 krónum á ári.
Mesta lækkun á tímabilinu hefur orðið hjá Fjarðabyggð þar sem kostnaðurinn hefur minnkað um 8,5 prósent eða 50.903 krónur á ári. Næst mest hafa gjöldin lækkað hjá Mosfellsbæ um 5,0 prósent eða 32.794 krónur á ári.