Gjöld fyrir skóla­dag­vistun og skóla­mat hækkuðu mest á tíma­bilinu 2019 til 2022 hjá Borgar­byggð, um 20,2 prósent eða 5.985 krónur á mánuði en lækkuðu mest hjá Fjarða­byggð, um 19,9 prósent eða 4.914 krónur á mánuði. Leik­skóla­gjöld hækkuðu mest hjá Sel­tjarnar­nes­bæ, um 24,2 prósent eða 6.590 kr. á mánuði en lækkuðu mest hjá Mos­fells­bæ, um 10,6 prósent eða 3.428 kr. á mánuði.

Það kemur fram í nýju verðlagseftirliti ASÍ þr sem tekið er saman breytingar á leik­skóla­gjöldum, skóla­dag­vistunar­gjöldum og skóla­mat frá 2019 til 2022 hjá fimm­tán stærstu sveitar­fé­lögum landsins.

Í saman­tekt ASÍ kemur fram að ef saman­lögð gjöld fyrir þjónustu fyrir börn hjá vísi­tölu­fjöl­skyldu eru skoðuð, það er gjöld hjá fjöl­skyldu með eitt barn á grunn­skóla­aldri í skóla­dag­vistun og skóla­mat og eitt barn í leik­skóla, má sjá að þau hafa hækkað mest hjá Sel­tjarnar­nes­bæ, um 21,6 prósent eða 139.117 krónur á ári.

Hjá Fjarða­byggð hafa sömu gjöld hins vegar lækkað um 8,5 prósent eða 50.903 krónur á ári.

Miðað er við saman­lögð gjöld fyrir skóla­dag­vistun (þrír tímar á dag), með síð­degis­hressingu og skóla­mat fyrir grunn­skóla­barn og átta tíma vistun á leik­skóla m. fæði fyrir barn á leik­skóla.

Skóla­dag­vistun og skóla­matur hækkar mest í Borgar­byggð

Saman­lögð gjöld fyrir þjónustu fyrir barn á grunn­skóla­aldri, skóla­dag­vistun með síð­degis­hressingu og skóla­mat, hækkuðu í 13 sveitar­fé­lögum af 15 frá 2019 til 2022, um 0,2 til 20,2 prósent sam­kvæmt saman­tekt ASÍ.

Hlut­falls­lega hækkuðu heildar­gjöld mest hjá Borgar­byggð, 20,2 prósent eða um 5.985 kr. á mánuði. Það gerir 53.865 kr. á ári miðað við níu mánaða vistun.

Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Sel­tjarnar­nes­bæ, 19,3 prósent eða 7.403 kr. á mánuði sem er mesta hækkun í krónum talið, 66.627 kr. á ári. Gjöldin lækkuðu mest hjá Fjarða­byggð, 19,9 prósent eða um 4.914 kr. á mánuði sem gerir 44.226 kr. á ári.

Leik­skóla­gjöld hækka mest hjá Sel­tjarnar­nes­bæ

Al­menn leik­skóla­gjöld, miðað við átta tíma vistun og fæði, hækkuðu í flestum sveitar­fé­lögum eða í 12 af 15.

Mest hækkuðu al­menn leik­skóla­gjöld hjá Sel­tjarnar­nes­bæ, um 24,2 prósent. Hækkunin nemur 6.590 kr. á mánuði eða 72.490 kr. á ári miðað við 11 mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Akra­nes­kaup­stað og Ísa­fjarðar­bæ, um 11 prósent hjá hvoru sveitar­fé­lagi fyrir sig.

Gjöldin lækkuðu hjá tveimur sveitar­fé­lögum, mest hjá Mos­fells­bæ um 10,6 prósent eða 3.428 krónur á mánuði. Næst mest lækkuðu gjöldin hjá Fjarða­byggð um 1,8 prósent eða 6.677 kr. á mánuði en gjöldin stóðu í stað á tíma­bilinu hjá Vest­manna­eyja­bæ.

Aukinn kostnaður með einu barni í leik­skóla og einu í grunn­skóla

Frá árinu 2019 hefur saman­lagður kostnaður vísi­tölu­fjöl­skyldunnar vegna þjónustu fyrir börn, það er kostnaður for­eldra með eitt barn í leik­skóla og eitt í grunn­skóla hækkað mest hjá Sel­tjarnar­nes­bæ um 21,6 prósent eða 139.117 krónur á ári sé miðað við 11 mánaða vistun á leik­skóla og 9 mánuði í skóla­dag­vistun og skóla­mat.

Næst mest hafa gjöldin hækkað hjá Borgar­byggð, um 12,6 prósent eða 85.006 á ári. Þar á eftir kemur Akra­nes­kaup­staður með 11,8 prósent hækkun eða 82.618 krónur á ári.

Ef litið er til sveitar­fé­laga á höfuð­borgar­svæðinu má sjá að gjöldin hafa hækkað um 9,8 prósent hjá Kópa­vogs­bæ eða sem nemur 64.653 krónum á ári. Hjá Reykja­víkur­borg hafa saman­lögð gjöld fyrir leik­skóla, skóla­dag­vistun og skóla­mat hækkað um 9,3 prósent eða 49.573 krónur á ári og hjá Garða­bæ nemur hækkunin 8,9 prósent eða 68.908 krónum á ári.

Mesta lækkun á tíma­bilinu hefur orðið hjá Fjarða­byggð þar sem kostnaðurinn hefur minnkað um 8,5 prósent eða 50.903 krónur á ári. Næst mest hafa gjöldin lækkað hjá Mos­fells­bæ um 5,0 prósent eða 32.794 krónur á ári.