Samgönguforritið Uber féll um rúmlega 7,6 prósent í dag, en það er fyrsti dagur fyrirtækisins á bandaríska hlutabréfamarkaðinum. Útboðið er því það slakasta í sögu bandarískra hlutabréfaútboða.

Uber skaust inn á sjónarsviðið 2009, þá sem stefnumarkandi sprotafyrirtæki sem tengdi saman einstaklinga sem þurfti á fari að haldi og þá sem gátu skutlað.

Í dag var félagið boðið almenningi til sölu með hlutabréfaútboði (e. initial public offering, IPO). Tímasetningin gat líklega ekki verið verri, en eins og Fréttablaðið greindi frá í dag hefur fjárfestum ekki litist á blikuna í ljósi viðræðna bandarískra og kínverskra yfirvalda sem litlum árangri hafa skilað og því tollastríð á milli þessara tveggja risa yfirvofandi. Í þokkabót hafa ökuþórar Uber verið í alþjóðlegu verkfalli að undanförnu.

Þrátt fyrir að prósentulækkunin á gengi hlutabréfa sé ekki svimandi há er það fjármagnið sem liggur þar að baki sem gerir tapið gríðarlegt. Uber var í upphafi útboðsins metið á 76,5 milljarði dala, eða um 9.200 milljarði króna.