Gengi tyrknesku lírunnar hríðféll um meira en 16 prósent gagnvart Bandaríkjadal eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hótaði að hækka tolla á innflutt ál og stál frá Tyrklandi. Bandaríkjaforseti lýsti því yfir á samfélagsmiðlinum Twitter fyrr í dag að tollar Bandaríkjastjórnar á ál yrðu 20 prósent og 50 prósent á stál. „Samband okkar við Tyrkland er ekki gott um þessar mundir,“ bætti Trump við.

Tyrkir seldu 1,5 milljónir tonna af stáli til Bandaríkjanna í fyrra en Bandaríkjamarkaður er stærsti útflutningsmarkaður landsins.

Gengi lírunnar hefur lækkað um 43 prósent gagnvart gengi Bandaríkjadalsins það sem af er árinu. Gengislækkunin í dag smitaðist yfir á tyrkneska skulda- og hlutabréfamarkaði en sem dæmi rauk ávöxtunarkrafa á tíu ára ríkisskuldabréf upp um 20,8 prósent og BIST 100 hlutabréfavísitalan lækkaði um 4,8 prósent. Hlutabréfaverð í tyrkneskum bönkum lækkaði að meðaltali um 8 prósent.

„Við munum ekki tapa viðskiptastríðinu,“ sagði Recep Tayip Erdogan, forseti Tyrkland, í ræðu fyrr í dag. „Ef einhver á dali, evrur eða gull undir koddanum ætti sá hinn sami að skipta því í lírur í næsta banka,“ bætti hann við.

Greinendur segja augljóst að Erdogan hafi mistekist ætlunarverk sitt, að róa fjárfesta. Jane Foley, greinandi hjá Rabobank, segir í samtali við Financial Times að „ögrandi“ ummæli Tyrklandsforseta hafi dregið úr væntingum markaðarins um að tyrknesk stjórnvöld auki aðhald peningastefnu sinnar og grípi til efnahagsumbóta.