Alls voru brott­farir er­lendra far­þega tvö­falt fleiri í júlí á þessu ári en í júlí í fyrra. Þetta kemur fram á vef Ferða­mála­stofu en alls voru 110 þúsund brott­farir er­lendra far­þega frá landinu um Kefla­víkur­flug­völl.

Þar segir að horfa þurfi allt til febrúar í fyrra, fyrir far­aldur, til að sjá á­líka fjölda brott­fara er­lendra far­þega í einum mánuði.

Brott­farir Ís­lendinga

Brott­farir Ís­lendinga í júlí voru um 31 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um 13 þúsund. Brott­farir Ís­lendinga hafa líkt og brott­farir er­lendra far­þega ekki mælst svo margar frá því í febrúar 2020 en þá voru þær um 34 þúsund talsins.

Brott­farir Ís­lendinga frá ára­mótum eru um 63.500 eða 41,3 prósent færri en á sama tíma­bili í fyrra.

Banhdaríkjamenn fjölmennastir

Banda­ríkja­menn voru fjöl­mennastir í júlí eða tæp­lega helmingur brott­fara.

Þá kemur fram hjá Ferða­mál­stofu að frá ára­mótum hafi alls 184 þúsund far­þegar farið frá Ís­landi sem er um 52 prósenta fækkun miðað við sama tíma­bil í fyrra. Þá voru brott­farir er­lendra tæp­lega 387 þúsund.

Lang­flestar brott­farir í júlí má rekja til Banda­ríkja­manna eða tæp­lega helming (46,6%). Þar á eftir fylgja brott­farir Pól­verja (10,2% af heild), Þjóð­verja (7,9% af heild), Breta (5,2% af heild) og Frakka (3,6% af heild). Sam­tals voru brott­farir fimm stærstu þjóð­erna 73,5 prósent.