Alls voru brottfarir erlendra farþega tvöfalt fleiri í júlí á þessu ári en í júlí í fyrra. Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu en alls voru 110 þúsund brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll.
Þar segir að horfa þurfi allt til febrúar í fyrra, fyrir faraldur, til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega í einum mánuði.
Brottfarir Íslendinga
Brottfarir Íslendinga í júlí voru um 31 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær um 13 þúsund. Brottfarir Íslendinga hafa líkt og brottfarir erlendra farþega ekki mælst svo margar frá því í febrúar 2020 en þá voru þær um 34 þúsund talsins.
Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 63.500 eða 41,3 prósent færri en á sama tímabili í fyrra.
Banhdaríkjamenn fjölmennastir
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í júlí eða tæplega helmingur brottfara.
Þá kemur fram hjá Ferðamálstofu að frá áramótum hafi alls 184 þúsund farþegar farið frá Íslandi sem er um 52 prósenta fækkun miðað við sama tímabil í fyrra. Þá voru brottfarir erlendra tæplega 387 þúsund.
Langflestar brottfarir í júlí má rekja til Bandaríkjamanna eða tæplega helming (46,6%). Þar á eftir fylgja brottfarir Pólverja (10,2% af heild), Þjóðverja (7,9% af heild), Breta (5,2% af heild) og Frakka (3,6% af heild). Samtals voru brottfarir fimm stærstu þjóðerna 73,5 prósent.