Zephyr Iceland hefur um nokkurt skeið áformað að reisa vindorkuver á Fljótsdalsheiði í landi Klaustursels í Múlaþingi. Upphaflega var gert ráð fyrir að hámarksstærð versins gæti orðið 250 megavött en nú hefur fyrirtækið ákveðið að stækka verkefnið upp í 500 megavött.

Til samanburðar er uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar um 690 megavött á meðan Búrfellsvirkjun skilar 250 megavöttum.

Það er því ljóst að áform Zephyr Iceland á Fljótsdalsheiði eru talsvert umfangsmeiri en áður stóð til.

Til að framleiða orku sem skilar 500 megavöttum þyrfti að reisa yfir 100 vindmyllur á heiðinni. Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Iceland, segir eðlilegar skýringar liggja að baki.

„Það er nú bara þannig að fleiri fyrirtæki, sem hafa áhuga á að kaupa raforku á Íslandi, hafa sett sig í samband. Bæði við okkur og önnur fyrirtæki. Eftirspurnin sem við finnum fyrir leiddi til þess að við teljum skynsamlegt að stækka verkefnið upp í 500 megavött. Það rúmast vel innan svæðis og því heppilegt að miða stærðina við eftirspurnina sem er til staðar.“

Áform eru uppi um á fjórða tug vindorkugarða á landinu öllu. Framkvæmdastjóri Zephyr Iceland segir ólíklegt að öll verkefnin verði að veruleika.

Aðspurður hvaða erlendu fyrirtæki hafi sett sig í samband segir Ketill að um slíkar þreifingar ríki jafnan trúnaður.

„En þetta eru nokkur fyrirtæki. Sum hafa fyrst og fremst lýst yfir áhuga á að koma inn með fjármagn en svo eru önnur sem hafa áhuga á að koma inn með tæknina. Þetta þarf allt að falla saman svo verkefni af þessari stærðargráðu verði að veruleika,“ segir Ketill.

Hann segir að í umræðunni um vindorku á Íslandi sé mikilvægt átta sig á hvað þurfi til svo slík verkefni verði að veruleika.

„Það getur verið villandi að horfa á öll þessi svæði sem eru til skoðunar og slá þeim inn í samtölu. Þegar það verður að teljast ólíklegt að öll verkefnin verði að veruleika.

Ketill leggur áherslu á að skynsamlegt sé að skoða fleiri en færri möguleika á þessu stigi.

„Á meðan við erum ekki búin að finna út úr því hvernig við viljum haga regluverkinu er eðlilegt að nokkrir möguleikar séu til skoðunar. Ég verð alla vega ekki var við annað en að þeir sem að þessu koma séu að vanda sig og stíga varfærin skref,“ segir Ketill.

Allt beri þetta þó að sama brunni að hans mati. Bæði hjá vindorkufyrirtækjum og sveitarstjórnum.

„Það er beðið eftir niðurstöðu starfshóps sem vinnur að því að kortleggja stöðuna. Við þurfum að sjá hver línan verður hjá ríkinu áður en hafist er handa. Við höfum ekki verið að pressa á einn eða neinn í þeim efnum. Þetta þarf að hafa sinn eðlilega gang og gerast í fullri sátt. Það er mikilvægast.“

Ketill segist í þeim efnum skilja afstöðu Múlaþings sem hefur ekki viljað fara í skipulagsbreytingar fyrir einstök verkefni fyrr en búið er að skýra regluverk hins opinbera.

„En við erum í startholunum. Höfum áform og leyfi til að setja upp mastur til að mæla vind á svæðinu og það er það sem við vonumst til að geta gert næsta sumar. Það er mikilvægt skref í þessu undirbúningsferli. Safna gögnum en stíga um leið ákveðin skref.“

Jónína Brynjarsdóttir, forseti sveitarstjórnar og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, tekur í sama streng og Ketill. Hún verður ekki vör við annað en að sveitarfélög um allt land séu að nálgast fyrirhuguð vindorkuverkefni af varfærni.

„Þetta er eins og með margt annað. Það felast í þessu bæði tækifæri og ógnir og við fylgjumst grannt með þeim verkefnum eru innan okkar sveitarfélags.“

Aðalatriðið, að mati Jónínu, sé að allir hafi aðgang að upplýsingum. Að allt sé uppi á borðum.

„Þannig er langbest að nálgast þetta. En svo þarf lagaramminn líka að vera skýr. Svo sveitarfélögin geti tekið afstöðu til einstakra verkefna og ákveðið hvort þetta sé eitthvað sem er samfélögunum á svæðinu til hagsbóta.”

Það er enginn á því að best sé að reisa ótal risastóra vindorkugarða upp um allar heiðar á Íslandi

Það sé því farsælast á þessum tímapunkti, að mati Jónínu, að bíða eftir niðurstöðu starfshóps um vindorku.

„Stjórnvöld þurfa að átta sig á því að þetta verður að vera samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Ég veit fyrir víst að það góða fólk sem er að vinna í þessu fyrir ráðuneytið er vel meðvitað um það.“

Best sé, að mati Jónínu, að halda ró sinni og vanda sig.

„Það er enginn á því að best sé að reisa ótal risastóra vindorkugarða upp um allar heiðar á Íslandi. Það á jafnt við um okkur hér fyrir austan og annars staðar á landinu. Fyrsta skrefið er að koma upp skýrum lagaramma og gæta þess að um hann ríki breið sátt og sameiginlegur skilningur,“ segir Jónína.