Unnið er nú að því að koma um 200 tonnum af notuðum vörum inn í nýja verslun Góða hirðisins við Köllunarklettsveg.

Framkvæmdastjórinn, Ruth Einarsdóttir, vonast til þess að geta opnað dyr verslunarinnar aftur í byrjun næsta mánaðar.

„Þetta er svo mikið magn sem fer í gegn daglega og um leið og það kemur stopp þá safnast það saman. Það koma sjö til tíu tonn til okkar á dag. Í byrjun mars voru komin um 90 tonn inn í húsið og ég á eftir að taka við um 110 tonnum. Þetta er rosalegt magn og svo mikil aukning frá því í fyrra,“ segir Ruth en dótið sem um ræðir kemur frá söfnunargámum á höfuðborgarsvæðinu.

Ljósmynd/ Þráinn Kolbeinsson

Hún segir mikla vitundarvakningu í gangi og að fólk almennt sé minna að henda og vilji frekar koma dótinu sínu inn í hringrásarhagkerfið. Þess vegna sé mikil aukning hjá þeim. Hún segir að þrátt fyrir stækkun sé ekki verið að fjölga starfsfólki heldur hafi hlutverk þess verið skilgreind betur.

„Það er einhver í gámum, einhver á lager og annar í verslun. Þannig nýtum við starfsfólkið betur.“

Ruth á von á að verslunin verði opnuð síðar í mánuðinum og biðlar til fólks að bíða með vorhreingerninguna þar til það gerist, eða koma dótinu á aðra nytjamarkaði.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir úr versluninni og af því dót sem búið er að koma fyrir.

Talsvert rýmra er í nýja húsnæðinu en því gamla.
Fréttablaðið/Anton Brink
Vantar þig dall?
Fréttablaðið/Anton Brink
Nóg af borðum og kommóðum.
Fréttablaðið/Anton Brink
Vantar þig sæti?
Fréttablaðið/Anton Brink
Eflaust hægt að spila góð lög á þessa.
Fréttablaðið/Anton Brink
Föt líka!
Fréttablaðið/Anton Brink
Það er hægt að setja list á veggina eða nota bara rammana.
Fréttablaðið/Anton Brink