Tvö dótturfélög Arctic Adventures munu sækja um greiðsluskjól hjá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Það er í samræmi við lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, sem Alþingi samþykkti um miðjan júní. Þetta staðfestir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, í samtali við Markaðinn.

Um er að ræða rekstrarfélagið Straumhvarf og Adventures Hotel Hof, sem rekur gistingu í Öræfum.

„Við hyggjumst sækja um þessi úrræði í ljósi algers tekjufalls vegna COVID-19,“ segir Styrmir Þór. „Þetta úrræði ríkisstjórnarinnar gefur okkur færi á að endurskipuleggja reksturinn í takt við nýjan raunveruleika. Eins og allir þekkja hefur ferðaþjónustan og fleiri atvinnugreinar þurft að horfa upp á algert tekjuleysi eftir að kórónaveiran blossaði upp. Blessunarlega hefur staðan í ferðamennsku farið batnandi á undanförnum vikum. Við munum nota greiðsluskjólið til að semja við kröfuhafa og leigusala. Auk þess þarf að ræða við lánastofnanir og hluthafa um hver fjárþörf félaganna verður á næstu misserum,“ segir hann.

„Tiltölulega skuldlétt“

Aðspurður hvort um sé að ræða háar fjárhæðir í greiðsluskjólinu, segir Styrmir Þór að félögin séu „tiltölulega skuldlétt,“ miðað við umfang. Vaxtaberandi skuldir Straumhvarfs séu um sjö hundruð milljónir króna, en bókfært virði fastafjármuna um 2,5 milljarðar króna. „Við erum að glíma við sjóðstreymisvanda, en ekki eiginfjárvanda,“ segir hann.

Styrmir Þór segir að móðurfélagið hafi ekki nýtt sér úrræðið, því það sé skuldlaust. Arctic Adventures eigi fleiri dótturfélög sem hafi ekki nýtt sér greiðsluskjól. Má þar nefna til dæmis Into the Glacier, sem býður upp á ferðir inn í ísgöngin í Langjökli. Þá á fyrirtækið eignarhlut í Lava Tunnel, sem býður upp á ferðir inn í Raufarhólshelli.

Freyja keypti nýlega

Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa, er stærsti hluthafi Arctic Adventures, með ríflega tuttugu prósenta hlut. Félagið Wings Capital, sem er meðal annars í eigu Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar, er næststærsti hluthafinn, með 17,5 prósenta hlut og framtakssjóðurinn Freyja, sem er í rekstri Kviku, sá þriðji stærsti með 15,8 prósent. Sjóðurinn keypti hlutinn við upphaf árs. Bakkagrandi, félag Styrmis Þórs, á tíu prósenta hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu.