Tækni- og ráðgjafarfyrirtækið DataLab hefur ráðið til starfa tvo unga sérfræðinga, Bjarna Braga Jónsson og Ágúst Heiðar Gunnarsson. Þeir luku nýverið framhaldsnámi erlendis með sérhæfingu í gagnavísindum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hjá DataLab munu Ágúst Heiðar og Bjarni Bragi þróa gagnadrifnar og snjallar lausnir og veita íslenskum fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um hagnýtingu gagna og gervigreindartækni í starfsemi sinni.

Ágúst Heiðar lærði fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík og lauk M.Sc.-prófi í Data Science í UCL í London árið 2020.

Að loknu grunnnámi starfaði Ágúst Heiðar hjá Kviku eignastýringu þar sem hann fékkst einkum við þróun gagnainnviða og sjálfvirknivæðingu.

Bjarni Bragi lærði eðlisfræði og hugbúnaðarverkfræði í Háskóla Íslands og lauk M.Sc.-prófi í eðlisfræði frá ETH í Zürich í Sviss árið 2017. Að námi loknu starfaði Bjarni hjá ráðgjafarfyrirtækjum í Zürich þar sem hann vann ýmis gagnadrifin verkefni tengd fjármálageiranum, bæði í Zürich og London. Samhliða námi á Íslandi starfaði Bjarni Bragi hjá Veðurstofunni og Datamarket.

DataLab er tækni- og ráðgjafarfyrirtæki stofnað árið 2016. Lausnir DataLab eiga það sameiginlegt að hagnýta gögn og aðferðir úr smiðju gagnavísinda og gervigreindar.