Stafræna auglýsingastofan Sahara hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn, þau Guðmund F. Magnússon, sérfræðing í stafrænni markaðssetningu og Ólöfu Arnalds, texta- og hugmyndasmið.

Guðmundur hefur starfað við markaðssetningu á netinu frá árinu 2012, þar af undanfarin fjögur ár í Þýskalandi en hann flutti aftur til Íslands nýlega. Á þessum tíma hefur hann m.a. stýrt herferðum á Google leitarvélinni fyrir Volkswagen á þýska markaðnum, netverslunina ASOS í Bandaríkjunum og WOW air á 11 evrópskum mörkuðum.

Guðmundur hefur áður starfað hjá auglýsingastofunum The Engine (áður Nordic eMarketing), Crealytics og Blackwood Seven en einnig verið sjálfstætt starfandi, m.a. sem prófarkalesari og þýðandi. Guðmundur er útskrifaður með BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MA í alþjóðasamskiptum frá Álaborgarháskóla í Danmörku.

Ólöf Arnalds er betur þekkt sem söngkona og lagasmiður. Hún hefur þó alltaf stundað ritstörf meðfram tónlistinni, m.a. fyrir Morgunblaðið og Reykjavík Grapevine. Ólöf er með BA gráðu í tónsmíðum og nýmiðlum frá Listaháskólanum en stundar nú diplomanám í stafrænni markaðssetningu við Háskólann í Reykjavík.

Síðastliðin tvö ár hefur hún starfað í auglýsingageiranum, annars vegar sem verktaki í textasmíð og prófarkalestri fyrir 45B og Kontor Reykjavík, hins vegar sem fastráðinn texta- og hugmyndasmiður hjá Íslensku auglýsingastofunni. Þar skrifaði hún m.a. fyrir Icelandair, Air Iceland Connect og Höfuðborgarstofu.