Stefnt er að því að selja hlutafé í vestfirska laxeldinu Arctic Fish fyrir 600 milljónir norskra króna, jafnviði 9,1 milljarð íslenskra króna, með skráningu á Euronext Growth Oslo-markaðinn í Noregi. Íslenskir fjárfestar, þar á meðal tveir lífeyrissjóðir, hafa skráð sig fyrir kaupum á 92 milljóna norskra króna hlut, jafnvirði 1,4 milljarða króna. Lífeyrissjóðirnir eru Birta og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.

Miðað er við að markaðsvirði Arctic Fish verði 1,6 milljarður norskra króna eða 24 milljarðar íslenskra króna, að því gefnu að útboðsgengið verði 61,2 krónur á hlut.

Horft er til þess að auka hlutafé laxeldisins um 350 milljónir norskra króna, jafnvirði 5,3 milljarða íslenskra króna. Nýtt hlutafé á að nýta til að efla virðiskeðjuna og auka framleiðslugetuna, að því er segir í tilkynningu til kauphallarinnar.

Stærsti hluthafinn tekur þriðjung

Norway Royal Salmon, sem á helmings hlut í Arctic Fish, skráði sig fyrir kaupum á 200 milljónum norskra króna eða um þriðjung útboðsins.

Íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Novo, sem er í eigu fjögurra Íslendinga, skráði sig fyrir kaupum á 45 milljónum norskra króna, jafnvirði 683 milljóna króna. Samkvæmt ársreikningi Arctic Fish var Novo eini íslenski hluthafinn við árslok 2019 með 2,5 prósenta hlut.

Fjármálastjóri Arctic Fish, Neil Shiran Thorisson, er skráður fyrir 41 milljón norska króna hlut og hópur stjórnenda laxeldisins hefur skráð sig fyrir kaupum á samanlagt 4,6 milljónum norskra króna.

Birta og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja

Enn fremur er eignastýring bankans Nordea skráð fyrir kaupum 50 milljón norskra króna hlut, Birta lífeyrissjóður fyrir kaupum á 28 milljónum norskra króna hlut, jafnvirði 425 milljónum íslenskra króna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja fyrir 15 milljóna norskra króna hlut, jafnvirði 228 milljónum króna og Vörður tryggingar fyrir fjögurra milljóna norskra króna hlut, jafnvirði 61 milljón króna.

Vert er að rifja upp að Lífeyrissjóður Vestmanneyja fjárfesti einnig í hlutafjárútboði Arnarlax í október. Tveir lífeyrissjóðir fjárfestu í því útboði, hinn sjóðurinn var Gildi.

Hluthafinn Bremesco Holding hyggst selja hlutafé fyrir allt að 200 milljónir norskra króna í Arctic Fish, jafnvirði þriggja milljarða króna. Það félag er í eigu Jerzy Malek, sem stofnaði pólska laxeldið Morpol, sem var einnig með starfsemi í Noregi og Bretlandi, og var síðar var selt til Marine Harvest.

Velti tæplega þremur milljörðum árið 2019

Arctic Fish velti 16,6 milljónum evra árið 2019, jafnviði 2,6 milljörðum króna og tapaði 4,9 milljónum evra, jafnvirði 762 miljónum króna, samkvæmt ársreikningi.

Arctic Fish er lax­eld­is­fyr­ir­tæki sem er með fimm eld­isstaðsetn­ing­ar í þrem­ur fjörðum á Vest­fjörðum. Arctic Fish er með eld­is­leyfi fyr­ir 11.800 tonna há­marks líf­massa og er með um­sókn­ir fyr­ir 20.100 tonna há­marks líf­massa til viðbót­ar. Arctic Fish áætl­ar að selja um 7.700 tonn af slægðum laxi á þessu ári, 11.700 tonn á næsta ári og áætlan­ir gera ráð fyr­ir ár­legri aukn­ingu upp í sölu á um 24.000 tonn­um af slægðum laxi árið 2025, að því er fram hefur komið í frétt mbl.is.

Arion banki kemur að sölu á hlutafé Arctic Fish ásamt DNB Bank og Pareto Securities.