Jóhann Gunnar Jóhannsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia, og Arnar Þór Másson, framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar, hafa báðir hætt störfum hjá fyrirtækinu.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir það í svari til Markaðarins. „Til að bregðast við áhrifum af Covid-19 hafa verið gerðar skipulagsbreytingar hjá Isavia sem fela í sér fækkun í framkvæmdastjórn um einn og sameiningu tveggja sviða. Samhliða hafa tveir framkvæmdastjórar Isavia, þeir Arnar Másson og Jóhann Gunnar Jóhannsson, látið af störfum hjá félaginu. Isavia þakkar þeim vel unnin störf á erfiðum tímum,“ segir Guðjón.

Jóhann Gunnar, sem var áður fjármálastjóri Ölgerðarinnar, og Arnar Þór, sem er í stjórn Marels, höfðu verið um skamma hríð hjá Isavia en þeir voru ráðnir til félagsins síðasta haust.

Í lok mars var 101 starfsmanni Isavia sagt upp störfum, ásamt því að 37 var boðið starf í lægra starfshlutfalli, en tekjur félagsins hafa dregist saman um 98 prósent. Mánuði síðar var 30 starfsmönnum hjá Fríhöfninni, dótturfélagi Isavia, sagt upp störfum og um 100 til viðbótar boðið starf í skertu starfshlutfalli.